Við erum loks að nálgast endamarkið í þessari hryllilegu þrautagöngu,“ segir Sarah Wagstaff, dóttir Grants Wagstaff sem fórst í flugslysi í Barkárdal 9. ágúst 2015.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær var aðalmeðferð í bótamálum Söruh, tveggja systkina hennar og móður á hendur Arngrími Jóhannssyni og Sjóvá í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Fjölskyldan telur Arngrím hafa með stórfelldu gáleysi valdið því að Kanadamaðurinn Grant Wagstaff lést er flugvél sem Arngrímur flaug brotlenti.

Hafnar að hafa sýnt af sér gáleysi

Arngrímur fyrir sitt leyti hafnar því með öllu að hafa sýnt af sér nokkurt gáleysi og þar með því að hann beri ábyrgð á dauða Grants. Sagði hann í dómsal að málið hefði fengið mikið á hann. Lögmaður Arngríms sagði hann hafa greinst með áfallastreituröskun eftir slysið. Dóms í málinu er að vænta innan fjögurra vikna.

Enginn úr fjölskyldu Grants var viðstaddur réttarhöldin í fyrradag. Arngrímur hefur lýst Grant sem góðum vini sínum og reist honum minnisvarða norður í Eyjafirði.

Sarah Wagstaff.
Mynd/Aðsend

Eftirmál slyssins hefðu getað verið auðveldari

Sarah segist ekki skilja hvers vegna Arngrímur hafi á þeim rúmlega sex árum sem liðin eru frá slysinu aldrei sett sig í samband við fjölskylduna. Eftirmál slyssins hefðu getað verið þeim auðveldari.

„Ég veit að pabbi hefði gert hlutina allt öðruvísi hefði hlutverkum þeirra verið snúið við,“ fullyrðir Sarah. „Hjarta mitt brast vegna pabba eftir slysið og þeirrar kuldalegu meðferðar sem við höfum fengið hjá Arngrími og tryggingafélagi hans Sjóvá.“

Sarah segist hugsa mikið til föður síns þessa dagana. „Ég hugsa til tímans sem við áttum saman fyrir slysið og til alls þess sem við höfum farið á mis við á þeim sex árum sem liðin eru frá slysinu, slysi sem ég tel að hefði algerlega verið hægt að komast hjá með því að sýna meiri umhugsun og árvekni,“ segir hún.

Að þessu sögðu kveðst Sarah vilja þakka öllum á Íslandi sem hafi sýnt fjölskyldunni vinarþel og stuðning. Nú verði réttlætinu vonandi loks fullnægt.

„Þá getum við lokið sögunni hans pabba. Ég hlakka til að heimsækja Ísland og slysstaðinn eftir þetta allt til að kveðja minn elskaða föður,“ segir Sarah.