Enn í dag glíma margar konur að við aukaverkanir tengdum tíðahringnum eftir bólusetningar vegna Covid-19. Samkvæmt óformlegri könnun á líðan kvenna sem eru meðlimir í Facebook-hópnum Tíðahringur bólusettra kvenna gegn C19 eru enn yfir helmingur þeirra sem finna fyrir aukaverkunum enn í dag rúmu einu og hálfu ári eftir bólusetningu.

„Ég sjálf er núna, einu og hálfu ári seinna, á blæðingum fimmtán til tuttugu daga mánaðarins og það er búið að reyna allt til að stoppa hjá mér,“ segir Rebekka Ósk Sváfnisdóttir, ein af stofnendum hópsins. Hún var greind á snemmbúnum tíðahvörfum 39 ára gömul eftir bólusetningu.

Skráð sem möguleg aukaverkun

Rebekka Ósk hyggst gera skaðabótakröfu vegna málsins. „Þetta er búið að hafa veruleg áhrif á mitt líf og ég er búin að eyða fullt af peningum í lækniskostnað, lyf og lyfjagjafir og ég er ekki sátt við það,“ segir hún.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefði lagt til að miklar tíðablæðingar yrðu skráðar sem möguleg aukaverkun af óþekktri tíðni við notkun Covid-19 bóluefnanna Cominaty og Spikevax.

Hátt í þrjú þúsund konur

Miklar umræður sköpuðust í kjölfar bólusetninga á milli kvenna vegna röskunar á tíðahring eftir bólusetningar vegna Covid-19.

Meðlimir Facebook-hópsins telja hátt í þrjú þúsund talsins. Á síðunni hefur skapast mikil umræða vegna málsins en þar geta konurnar rætt saman sín og milli og borið saman bækur sínar. Konurnar kröfðust rannsóknar á málinu og í kjölfarið kölluðu Lyfjastofnun og embætti landlæknis til óháða aðila til að rannsaka þau tilfelli sem vörðuðu röskun á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningarinnar og voru tilkynnt til Lyfjastofnunar.

Í niðurstöðum nefndarinnar kom fram að ekki væri hægt að útiloka að bólusetning hafi raskað tíðahring kvenna í nokkrum tilfellum.

Engin skoðun bara spurningar

Rebekka Ósk segir ekki hafa verið staðið vel að könnun Lyfjastofnunar og embættis landlæknis. „Það voru þarna þrír óháðir læknar sem voru fengin í þetta verkefni og það var hringt út í konur. Þeir sögðust hafa hringt út í fullt af konum og svo fór ég að spyrjast fyrir inni í hópnum og það var hringt í örfáar konur,“ segir Rebekka Ósk og bætir við að hún hafi fengið símtal.

„Við vorum ekkert skoðaðar þetta voru bara nokkrar spurningar og þar með var því lokið,“ segir hún.

Að sögn Rebekku Óskar hafa íslensk stjórnvöld og Lyfjastofnun þaggað málið niður. „Ég er mjög ósátt við þetta og mér finnst þeir skuldi þjóðinni að þetta komi fram og að það verði talað um þetta. Þetta hefur áhrif á líf svo margra og við höfum enga ástæðu til að vera ljúga einhverju svona, þetta er bara kjánalegt.“

Hyggst leita réttar síns

Líkt og fyrr segir hefur verið lagt til að miklar tíðablæðingar verði skráðar sem möguleg aukaverkun af óþekktri tíðni við notkun Covid-19 bóluefnanna Cominaty og Spikevax.

Aðspurð um tillögu Lyfjastofnunar Evrópu um að skrá miklar tíðablæðingar sem mögulega aukaverkun segir Rebekka Ósk það fagnaðarefni. „Við erum svo sannarlega að standa í þessu og meirihluti okkar er enn að standa í vandamálum og inn og út hjá læknum.“

Rebekka Ósk hefur sjálf þurft að leita til lækna og fara í ýmsar rannsóknir vegna þeirra aukaverkana sem hún fékk í kjölfar bólusetninga. „Ég var send í rannsókn og það sést til dæmis hjá mér hormóna ójafnvægi frá heiladingul. Kvensjúkdómalæknirinn minn og læknirinn minn hjá Livio staðfesta að þetta er bara bólusetningin og ekkert annað. Þetta er allt í minni sjúkraskýrslu, þetta er allt upp á borðum,“ segir Rebekka Ósk sem hyggst leita réttar síns.