Eftir eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 flutti allnokkur hópur Eyjamanna til Grindavíkur og hóf þar nýtt líf. Einn af þessum brottfluttu Eyjamönnum er Adólf Sigurgeirsson sem nú er 89 ára gamall. Hann missti húsið sitt í Vestmannaeyjum í hamförunum á sínum tíma en fjölskyldunni var tekið opnum örmum í sjávarplássi suður með sjó, Grindavík.

„Okkur var fyrst tjáð að það væri ekkert húsnæði laust í Grindavík. Síðan fréttist að ég væri járnsmiður og þá var fjölskyldunni þegar útveguð íbúð og mér var tjáð að ég fengi aldrei að yfirgefa Grindavík,“ segir Adólf kíminn. Sú ráðstöfun stóð stutt yfir og skömmu síðar var fjölskyldunni úthlutað húsi í bænum. Þar hefur Adólf búið síðan og unir hag sínum vel.

„Mér hefur alltaf liðið vel í Grindavík. Kannski er það vegna þess að Grindavík er sama rokrassgatið og Vestmannaeyjar. Ég kann vel að meta rokið,“ segir Adólf.

„Ég verð ekki hræddur en ég upplifi helst einmanaleika," segir Adólf.

Adólf segir að jarðhræringarnar nú séu sannarlega óþægilegar en að hann óttist þó ekkert.

„Ég verð ekki hræddur en ég upplifi helst einmanaleika. Ég missti konuna mína fyrir tveimur árum og það er skrítið að vera einn og hafa engan til að ræða við um þessa atburði,“ segir Adólf.

Hann segir að pólskir nágrannar hans bjargi þó miklu. „Þetta eru vinir mínir og úrvalsfólk í alla staði. Þau vilja allt fyrir mig gera,“ segir Adólf.

Ef eldgos hefst við Grindavík er Adólf með áætlun á reiðum höndum. „Þá bruna ég til Þorlákshafnar og sigli aftur til Vestmannaeyja. Loka hringnum,“ segir hann og hlær.