„Ég furða mig nú á því að Ásmundi hafi verið tilkynnt um ráðgefandi álit siðanefndar Alþingis,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og vísar til fréttar á mbl.is þar sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa fengið álit nefndarinnar en verið beðinn um trúnað þar til forsætisnefnd hefur lokið meðferð málsins.

Þórhildur Sunna vísar til ákvæðis í siðareglunum sem segir að forsætisnefnd þingsins feli skrifstofu Alþingis að tilkynna sendanda erindis [Ásmundar í þessu tilviki] þegar niðurstaða forsætisnefndar liggur fyrir. „Það er ljóst af siðareglunum sjálfum, að það á ekki að tilkynna Ásmundi neitt fyrr en niðurstaða forsætisnefndar liggur fyrir. Það gerir hún ekki.,“ segir Þórhildur Sunna.

Forsætisnefnd hittist á mánudaginn og mun þá væntanlega ræða álit siðanefndar en ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða kemur frá forsætisnefnd í málinu.

„Okkur var kynnt niðurstaða siðanefndar til að gefa okkur kost á að koma með athugasemdir til forsætisnefndar. Ég veit ekki hvers vegna Ásmundi var kynnt afstaða siðanefndar á þessu stigi og af hverju hann var beðinn að þegja yfir því en ekki við. Hann á í öllu falli ekki rétt á tilkynningu fyrr en málinu er lokið,“ segir Þórhildur Sunna.

Í frétt mbl.is furðar Ásmundur sig á því að trúnaðar sem forsætisnefnd hafi óskað, hafi ekki verið gætt og vísað er í frétt Fréttablaðsins í dag um málið. Í fréttinni segir einnig að mbl.is hafi heimild fyrir því að óskað hafi verið trúnaðar frá aðilum máls meðan málið er enn til meðferðar hjá forsætisnefnd.

„Það er bara ekki rétt að óskað hafi verið eftir trúnaði við okkur,“ segir Þórhildur Sunna og vísar til bréfs undirrituðu af forseta þingsins til sín og Björns Levís Gunnarssonar um ráðgefandi álit siðanefndar. Í bréfinu er hvergi minnst á trúnað. Í siðareglunum er heldur ekki minnst á trúnaðarskyldu þess sem sakaður er um brot á siðareglunum.

Aðspurð segist Þórhildur Sunna ekki hyggjast gjalda líku líkt með því að krefjast álits siðanefndar Alþingis á ummælum Ásmundar um trúnaðarbrot. „Ég vil ekki leysa þetta upp í skrípaleik. Þetta er alvarlegra mál en svo,“ segir Þórhildur Sunna en lætur þess þó getið að það hljóti að kasta rýrð á virðingu Alþingis ef þingmenn láta í veðri vaka að aðrir þingmenn kunni ekki að halda trúnað.

Hér að neðan má sjá bréf forseta Alþingis til Þórhildar Sunnu og Björns Levís.