Íslendingar ætla á árinu að snúa viðskiptum sínum meira en áður að íslenskum fyrirtækjum en erlendum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.

Tæp 38 prósent þeirra sem tóku afstöðu gera ráð fyrir að versla meira við íslensk fyrirtæki en áður. Rúm 60 prósent gera ráð fyrir að versla svipað og áður við íslensk fyrirtæki en aðeins rúm tvö prósent gera ráð fyrir minni verslun.

Ef spurt er um erlend fyrirtæki, eins og erlendar netverslanir, blasir við önnur mynd. Þannig segjast nánast jafn margir, eða um 48 prósent, annað hvort ætla að versla minna eða svipað við erlend fyrirtæki. Aðeins fjögur prósent gera ráð fyrir að versla meira við erlend fyrirtæki.

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða og kemur mér ekki á óvart. Það er ánægjulegt að fá það staðfest að þegar á reynir er tryggð neytenda við innlend fyrirtæki,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, um þessar niðurstöður.

graf_konnun_graf (002).PNG


Hann segir þetta líka í takt við þá tilfinningu sem samtökin hafi og rími vel við áherslur stjórnvalda og atvinnulífsins á innlenda verslun. Um helgina fór af stað auglýsingaherferð þessara aðila þar sem neytendur eru hvattir til að beina viðskiptum sínum í eins miklum mæli og þeir geti til innlendra fyrirtækja.

„Þetta er líka mjög í takt við það sem oft gerist við svona aðstæður að fólk snýr sér meira að innlendum fyrirtækjum. Það er ekki bara bundið við Ísland heldur er þetta þekkt almennt,“ segir Andrés.

Stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar ætlar í meira mæli að auka verslun við íslensk fyrirtæki en þeir sem ekki styðja stjórnina. Þannig ætla 40 prósent stuðningsfólks stjórnarinnar að auka verslun en 31 prósent þeirra sem ekki styðja hana.

Þá gera 56 prósent þeirra sem styðja ríkisstjórnina ráð fyrir að minnka verslun við erlend fyrirtæki en 37 prósent þeirra sem ekki styðja stjórnina.

Stuðningsfólk Framsóknarflokksins er líklegast til að minnka verslun við erlend fyrirtæki en 63 prósent þess gerir ráð fyrir því. Hlutfallið er hins vegar lægst hjá Samfylkingarfólki eða tæp 42 prósent.

Stuðningsfólk Vinstri grænna gerir helst ráð fyrir því að auka verslun við íslensk fyrirtæki en rúmur helmingur svarar spurningunni þannig. Lægst er þetta hlutfall hjá Pírötum eða 31 prósent.

Fleiri konur en karlar ætla að auka verslun við íslensk fyrirtæki. Tæplega 42 prósent kvenna og rúmlega þriðjungur karla gerir ráð fyrir því. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi og íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru einnig líklegri til auka verslun við íslensk fyrirtæki en aðrir hópar.

Könnunin sem var send á könnunarhóp Zenter rannsókna var framkvæmd 1. til 4. maí. Í úrtaki voru 2.300 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var 53 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.