Sveitarstjórn Árborgar stefnir að því að þétta byggðina innan Selfoss og hefur fengið verkfræðistofuna Eflu á Suðurlandi til að gera skýrslu um mögulega þéttingarreiti. Sextán reitir hafa verið valdir og sex þeirra teknir til frekari greiningar í fyrsta áfanga.

„Ein helsta ástæðan fyrir því að við viljum þétta byggðina er gríðarlega mikil eftirspurn eftir byggingarlóðum á Selfossi. Við höfum varla undan að framleiða íbúðir fyrir fólk,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, sveitarstjóri Árborgar. Byggðar hafa verið um 200 til 300 íbúðir á ári og á síðasta ári fjölgaði íbúum í sveitarfélaginu um 1.000, þar af langmest á Selfossi. „Við höfum áhyggjur af því að ef við náum ekki að anna eftirspurninni þá hækki það fasteigna- og lóðaverð fram úr hófi. Því er handhægast að líta til þeirra svæða þar sem gatnagerð er tilbúin og lítið þarf til að hefja framkvæmdir,“ segir hann.

Í heildina gerir þetta um 43.000 fermetra í lóðum og um 13.500 fermetra í byggingarsvæði. Ekki hefur verið ákveðið hvers konar íbúðir verður um að ræða.

Bæjarstjórn bað um úttektina í nóvember síðastliðnum og hugmyndirnar verða núna lagðar fram til kynningar og umræðu. Gísli segir útilokað að segja til um lokaniðurstöðuna og hverjir af þessum reitum haldist vænlegir eftir umræðuna. „Næsta skref er að heyra í íbúum og kanna afstöðu til þeirra reita sem minnstar líkur eru á að valdi óánægju,“ segir Gísli sem vonast til að það verði ljóst í vetur hvað verði gert, helst fyrir páska. „Við þurfum að hafa hraðar hendur en verðum að gefa fólki tækifæri á að bregðast við og lýsa sínum skoðunum.“

Umræða hefur skapast á meðal íbúa í bænum um grænu svæðin og leikvellina sérstaklega, sem hugsanlega hverfa með þéttingunni. Í inngangi skýrslunnar er þó sérstaklega kveðið á um þessi svæði og mælt með því að sveitarfélagið geri áætlun um þau, það er að sem flestir íbúar geti haft aðgang að leiksvæði innan 300 metra radíuss.

Gísli segir að aðgangur að leiksvæðum verði í forgangi og ef einhver leiksvæði fari undir byggð verði aðrar lausnir til staðar. „Við erum að fara að byggja tvö ný leiksvæði sem mikil þörf er fyrir strax á næsta ári,“ segir hann.