„Þetta er eiginlega okkar gullni hringur hér á Austfjörðum því það eru ótrúlega margar perlur á þessari leið,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri Austurbrúar, en hún sendi tölvupóst til byggðarráðs Múlaþings þar sem hún leggur til að bætur verði gerðar á veginum frá Kárahnjúkastíflu að Jökuldal á Brú.

Á umræddum vegi er meðal annars Stuðlagil, Magnahellir, Laugafell og Hafrahvammagljúfur en einnig hinir stórkostlegu Litlanesfoss og Hengifoss svo fátt eitt sé nefnt. Laugavalladalur er svo perla sem ekki allir vita af en fleiri ættu að kannast við Kárahnjúkastíflu.

María segir að það sé ekki mikil framkvæmd að laga veginn því það sé bundið slitlag að stíflunni. „Þetta er mjög spennandi og mikil tækifæri því það er búin að vera mikil uppbygging á þessu svæði.

Þetta opnar mikla möguleika á að geta farið þennan hring í staðinn fyrir að stoppa og snúa við. Það er malbikað að stíflunni og það þarf því ekki mikið til að gera leiðina í raun frábæra og færa öllum bílum.“

Byggðarráð Múlaþings tók vel í erindi Maríu og fól Birni Ingimarssyni sveitarstjóra að koma málinu á framfæri við Vegagerðina.

María segir að þó verið sé að huga að bílum í þessari tillögu séu margar fallegar gönguleiðir nánast í túnfætinum. „Til dæmis fossahringurinn frá Óbyggðasetrinu og upp að Laugafelli. Hengifoss fékk styrk til að byggja þjónustuhús og betri aðstöðu úr framkvæmdasjóði ferðamanna. Stuðlagil fékk líka úthlutað.“

María Hjálmarsdóttir verkefnastjóri

Hún segir að til að gera aðgengið enn betra þurfi Vegagerðin að koma með í verkefnið og hún er glöð yfir að verkefnið sé komið af stað og sé í farvegi. „Þetta er komið í ferli og við höfum átt gott samtal við Vegagerðina á síðasta ári um uppbygingu varðandi Stuðlagil og um þennan hringveg. Ég held að það sé hljómgrunnur fyrir þessu og vonandi byggist þetta upp á góðan hátt.“

María segir að verði hugmyndin um bættan veg að veruleika muni fleiri stoppa til dæmis í Laugavalladal sem sé jákvætt en geti einnig verið neikvætt eins og gífurleg umferð um Stuðlagil sýndi. „Dalurinn þolir ekki mikinn átroðning eins og er. Með tilkomu Stuðlagils er að myndast pressa á Vegagerðina því það er talsverð umferð þangað.

Þetta á að vera gerlegt því þarna eru að mestu þurrir melar og ef þetta yrði gert rétt og samtalið við alla hagsmunaaðila er gott þá sé ég skemmtilegt tækifæri á skemmtilegri ferðaleið fyrir gesti enda vilji allra að hafa innviði í lagi og vegirnir séu öruggir,“ segir María.