Stefnt er að því að opna kvennaathvarf á Akureyri fyrir þolendur ofbeldis í ágúst á þessu ári.

Verður þar boðið upp á sólarhringsþjónustu fyrir konur og börn þeirra sem geta ekki dvalið heima hjá sér vegna ofbeldis í anda Kvennaathvarfsins í Reykjavík. N4 greindi fyrst frá.

Langþráður draumur að rætast

Gert er ráð fyrir því að athvarfið verði starfrækt í fjögurra herbergja íbúð í nágrenni við Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

Í bréfi til Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra segir að það hafi lengi verið draumur forsvarsfólks Kvennaathvarfsins að opna útibú á Akureyri og auka þjónustu við þolendur ofbeldis á Norðurlandi.

Hún hafi aukist verulega með tilkomu Bjarmahlíðar í fyrra en konum sem þurfi að flýja heimili sín vegna ofbeldis standi hins vegar einungis til boða að leita í neyðarathvarf Kvennaathvarfsins í Reykjavík.

Starfrækt fram í apríl 2021

Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum Samtaka um kvennaathvarf í samvinnu við Bjarmahlíð, Aflið, félagsmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og Akureyrarbæ.

Bæjarráð Akureyrar samþykkti í gær að veita verkefninu styrk og fagnaði um leið fyrirhugaðri opnun.

Til stendur að halda tilraunaverkefninu áfram út apríl á næsta ári.

„Þegar líður að lokum tímabilsins leggjum við á ráðin um framhaldið en við sem komum að þessu verkefni erum þess fullviss að það leiði í ljós þörf fyrir kvennaathvarf á og hlökkum til að breyta tilraunaverkefni í framtíðarskipulag,“ segir í bréfinu sem Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, undirritar fyrir hönd Samtaka um kvennaathvarf.