Gert er ráð fyrir því að umræður um útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra eigi eftir að halda áfram eitthvað fram á nótt. Önnur umræða um frumvarpið hefur nú staðið yfir í sex daga en sögn Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, hefur ekki komið til tals að beita þingskaparákvæði til að stöðva umræðuna með atkvæðagreiðslu.
„Við fengum heimild meirihluta þingsins í atkvæðagreiðslu klukkan þrjú til að vera lengur en þingsköp kveða á um, sem er átta á venjulegum degi,“ segir Birgir. „Ég geri ráð fyrir að við verðum eitthvað fram á nóttina. Það liggur ekki fyrir hve lengi. En þetta er sjötti þingdagurinn sem þetta mál er til annarrar umræðu. Það þarf að fara að spýta í svo við getum farið að taka önnur mál fyrir.“
Birgir segir að það hafi aðallega verið þingmenn Pírata sem héldu umræðunni áfram í dag. „En beiting ákvæðisins um að það sé hægt að stöðva umræðu með atkvæðagreiðslu er neyðarúrræði sem gripið er til að öllum öðrum leiðum reyndum. Mér finnst ótímabært að vera í einhverjum vangaveltum um það þótt þingsköpin geri ráð fyrir þeim möguleika.“
Fyrri úrræði segir Birgir vera þau að lengja og fjölga þingfundum. Hann treystir sér ekki til að spá hve lengi málið kann að halda áfram.
„Þetta verður að hafa sinn gang í bili en það er auðvitað þannig að á þessari stundu eru það bara Píratar sem geta svarað því hvað þeir vilja halda málinu lengi í annarri umræðu,“ segir Birgir. „Það er búið að lýsa því yfir að málið muni ganga til nefndar á milli annarrar og þriðju umræðu. Og svo er þriðja umræða eftir. En ástæða þess að þetta var flutt úr desember og fram í janúar er sú að það var ljóst að umræður yrðu miklar og tíminn núna rýmri heldur en í desemberönnunum.“