Í dag spáir Veðurstofan hvassri suðvestanátt, 15-23 m/s, hvassast um landið norðvestanvert, þar sem gæti orðið stormur. Það verða víða él, en það léttir til austanlands. Veður fer kólnandi og hiti verður í kringum frostmark þegar kemur fram á daginn.

Hvass vindur og snjóél geta valdið erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð í dag og því eru gular viðvaranir í gildi í dag á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Miðhálendi. Einnig er varað við vatnavöxtum í ám og lækjum í kjölfar hlýinda og mikillar úrkomu á Suður- og Vesturlandi.

Á morgun er útlit fyrir suðvestan 8-13 m/s og dálítil él, en áfram verður bjart austantil á landinu. Annað kvöld verður vaxandi sunnanátt með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands og það hlýnar.

Á miðvikudag stefnir í stífa sunnanátt með rigningu og hlýindum, en það snýst síðan til vestanáttar og kólnar og um kvöldið verða komin snjóél aftur á vesturhelmingi landsins. Það eru ekki horfur á að óróleikinn sem hefur verið í veðrinu hverfi á næstunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðvestan 8-13 m/s og dálítil él, en bjart austantil á landinu. Hiti nálægt frostmarki. Vaxandi sunnanátt um kvöldið með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands og hlýnar.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt 13-20 m/s og talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Austurlandi. Vestlægari um kvöldið með éljum og kólnar, en rofar til um landið austanvert.

Á fimmtudag:

Suðvestan og vestan 13-20 m/s og éljagangur, en léttskýjað austantil á landinu. Frost 0 til 4 stig.

Á föstudag:

Suðvestlæg eða breytileg átt og snjókoma eða él, en þurrt austanlands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Breytileg átt og líkur á snjókomu í flestum landshlutum. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag:

Líkur á norðan stormi með snjókomu, en úrkomulaust sunnanlands. Vægt frost.

Færð og ástand vega

Yfirlit:

Vetrarfærð er í flestum landshlutum en margar leiðir greiðfærar sunnanlands.

Norðurland:

Þæfingsfærð er á á Vatnsskarði en vetrarfærð á flestum öðrum leiðum. Víðast hvar éljagangur.

Norðausturland:

Flughált er uppi á Biskupshálsi en annars víðast hvar vetrarfæri og greiðfært á köflum.

Austurland:

Flughált er á Upphéraðsvegi að norðanverðu, í Skriðdal og á þjóðvegi 1 í Jökuldal. Helstu leiðir greiðfærar að mestu en hálka víðast hvar á útvegum.