„Sagnfræðingar hafa ágætis orð fyrir bækur af þessu tagi sem ,[er] leikmannsþankar“, segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í pistli, í tengslum við ásakanir Bergsveins Birgissonar um ritstuld í nýjustu bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs.

Pistilinn birti Ásgeir á Facebook-síðu sinni fyrir stundu.

Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands, segist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa lagst í rækilegan samanburð á verkunum tveimur, en hvorugt ritið sé skrifað sem sagnfræðirit.

Þá segist Sverrir taka undir orð Gunnars Karlssonar, sem Ásgeir Jónsson vísar til, í nýlegum pistli á Facebook. Ásgeir segir þar:

„Í þessu samhengi má einnig halda því til haga að í ritdómi um bókina sem Gunnar Karlsson ritaði í Sögu Tímarit Sögufélagsins árið 2019 eru gerðar athugasemdir við heimildanotkun og túlkanir bókarinnar og segir að ritverk af þessum toga séu „býsna ósambærileg við sagnfræði“. Gunnar telur það alls ekki augljóst að hún geti talist fræðirit.“

„Það er yfirlýst í Svarta víkingnum að þetta sé ekki hefðbundið fræðirit og hún er ekki gefin út hjá ritrýndu forlagi,“ segir Sverrir og bætir við: „Það er rétt sem Gunnar Karlsson segir og ég held að allir miðaldasagnfræðingar geti tekið undir það.“

Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Sverrir segist hafa blaðað í gegnum bók Ásgeirs: „Ég verð að segja mér finnist hún ekki minna mikið á Svarta víkinginn, nema að báðir eru mjög trúir á gildi Landnámu sem sögulegrar heimildar, sem er ekki hefðbundin skoðun meðal miðaldasagnfræðinga,“ segir hann.

Bergsveinn hafnar málflutningi Sverris

Aðspurður segir Bergsveinn sjálfur rangt að ekki sé um fræðirit að ræða.

Þetta er ritrýnd bók og áratuga rannsóknir sem liggja að baki.

„Já það er rangt vegna þess að það er sagnfræðileg rannsokn að baki. Hins vegar er form bókarinnar ekki i stíl við akademiska orðræðu og það sem almennt tíðkast í akademiskum skrifum. Þetta var gert til að ná til breiðari lesendahóps. Þetta er ritrýnd bók og áratuga rannsóknir sem liggja að baki,“ segir Bergsveinn.

Bergsveinn er doktor í norrænum fræðum.

Fréttin var uppfærð klukkan 17.33 með athugasemdum frá Bergsveini Birgissyni.