Engin smit greindust síðastliðinn sólarhring, hvorki innanlands né á landamærum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.

Einn greindist með Covid-19 hér á landi í gær og var sá í sóttkví við greiningu. Daginn áður, þann 10. júní, voru einnig jákvæðar niðurstöður þegar ekki einn einasti greindist með COVID-19. Vert er að nefna að enginn hefur greinst utan sóttkvíar hér á landi í heila viku.

Næstu daga og vikur eru stórir bólusetningardagar. Stefnt verður að því að allir fullorðnir verði búnir að fá boð í bólusetningu 25. júní næstkomandi og að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt um næstu mánaðamót.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því í gær að eins metra regla tæki við tveggja metra reglunni þann 15. júní næstkomandi. Þá munu samkomutakmarkanir miðast við 300 manns.