Landspítalinn birti nú rétt fyrir hádegi niðurstöður rannsókna sýkla- og veirufræðideildar á Covid-skimun liðlega helmings þeirra 180 einstaklinga sem þurfti að skima. Enn sem komið er hafa allar niðurstöður starfsfólks reynst neikvæðar eða liðlega 100 talsins, rétt eins og hinna 32 inniliggjandi sjúklinga. Fólkið er því ekki sýkt af Covid-19.

Dagvaktin á spítalanum var í gær var skimuð fyrir COVID-19 og rannsökuð í gærkvöldi, ásamt hinum 32 inniliggjandi sjúklingum. Sýnataka af starfsfólki stóð fram á liðna nótt og hélt áfram fyrir hádegi í dag.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gærkvöld greindist sjúklingur sem var inniliggjandi á hjartadeild Landspítalans með COVID-19 í gær. Ekki liggur fyrir hvernig umræddur sjúklingur smitaðist, en þó liggur fyrir að viðkomandi smitaðist inniliggjandi á hjartadeild.

„Um nokkur hundruð manns er að ræða að öllu samanlögðu, því bæði þarf að skima alla rúmlega 100 starfsmenn deildarinnar og annað starfsfólk sem þjónustar sjúklinga og starfsemi deildarinnar, til dæmis sjúkraþjálfara og ræstingafólk," segir í tilkynningu.

Umfangsmikið viðbragð hefur verið á spítalanum vegna atburðarins og funda stjórnendur í hádeginu um málið.

Lokað hefur verið fyrir nýjar innlagnir á hjartadeild en deildin er þó enn í fullri starfsemi og er vel mönnuð.