Virginia Giuf­fre hefur nú höfðað einka­mál gegn Andrési Breta­prins vegna kyn­ferðis­brota en í kærunni segir að prinsinn hafi brotið á henni, vitandi að hún var undir lög­aldri og fórnar­lamb mansals. Þá segir að Giuf­fre, sem er í dag 38 ára, glími enn við and­legar af­leiðingar brotanna.

„Fyrir tuttugu árum nýtti Andrés prins sér auð­æfi sín, vald sitt, stöðu og tengsl til að mis­nota hrætt og ber­skjaldað barn þar sem enginn var til staðar til að vernda hana. Það er löngu tíma­bært að hann verði látinn bera á­byrgð,“ segir í kærunni.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið höfðaði Giuf­fre malið í New York með vísun til laga um í ríkinu um rétt þol­enda til að höfða mál vegna brota sem þau urðu fyrir sem börn þrátt fyrir að brotin séu fyrnd

„Í þessu landi er enginn, hvorki for­seti né prins, hafinn yfir lög, og enginn, alveg sama hversu hjálpar­laus eða ber­skjaldaður, skal ekki fá að njóta vernd laganna,“ segir enn fremur í kærunni.

Neitar alfarið sök

Á­sakanir Giuf­fre á hendur Andrési litu fyrst dagsins ljós í ágúst 2019 og sagði hún prinsinn hafa mis­notað sig þegar hún var 17 ára á heimilum banda­ríska milljarða­mæringsins Jef­frey Ep­stein í Banda­ríkjunum og á heimili Ghisla­ine Maxwell í Lundúnum.

Á­sakanirnar gegn Andrési voru að finna í réttar­skjölum vegna máls Ep­steins, sem var þá sakaður um man­sal, mis­notkun á börnum og vörslu á barna­klámi, en Ep­stein lést í fanga­klefa sínum degi eftir að skjölin voru af­hjúpuð.

Andrés hefur al­farið neitað sök í málinu en í sjón­varps­við­tali skömmu eftir að greint var frá á­sökununum sagðist prinsinn sjá eftir sam­bandi sínu við Ep­stein.