Eitt virkasta og sennilega frægasta eldfjall á Íslandi er Hekla í Rangárvallasýslu. Það sést víða að, enda 1491 m hátt og efsti hlutinn snævi þakinn árið um kring. Þetta er 5 km langur eldhryggur, sem orðið hefur til við endurtekin gos á gossprungu sem liggur úr suðvestri í norðaustur. Úr fjarlægð minnir Hekla á bát á hvolfi með ljósan kjöl.

Áður fyrr var orðið hekla þó notað fyrir kápu með hettu, sem á vel við snæhvítar brekkurnar, eða kamb til að kemba hör eða lín. Hekla er með virkustu eldfjöllum landsins og eru gos á sögulegum tíma yfir 20 talsins, það síðasta í febrúar 2000. Stærst var gosið 1104 en þykkt gjóskufallið lagði meðal annars byggð í Þjórsárdal í eyði.

Skjólkvíar snemma vors, en þaðan liggur helsta göngu- og fjallaskíðaleiðin á Heklu.
Mynd/TG

Hekla varð snemma alræmd víða um heim og á miðöldum var talið að í eldgígunum leyndist inngangur að sjálfu helvíti. Þegar náttúrufræðingarnir Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson gengu fyrstir á fjallið 1750 sáu þeir þó Kölska hvergi og þrátt fyrir hrakspár náðu þeir lifandi niður. Nokkrar gönguleiðir eru á Heklu en sú sem oftast er farin liggur frá Skjólkvíum norður af fjallinu.

Er þá ekið eftir svokallaðri Dómadalsleið í áttina að Landmannalaugum en áður en komið er norður fyrir Heklu er sveigt í suður og fylgt jeppaslóða að Skjólkvíum. Hryggur fjallsins er þræddur að hátindinum og tekur gangan fram og til baka 5-8 klst.

Fleiri Heklugos hafa valdið miklum búsifjum þar sem gjóskufall hefur breytt grónum svæðum í vikurauðnir. Flúoreitrun í sauðfé, svokallaður gaddur, hefur einnig fylgt Heklugosum og skýrist af óvenjuháu flúorinnihaldi kvikunnar. Sjúkdómurinn veldur meðal annars sliti á jöxlum jórturdýra sem gerir þeim erfitt að bíta og tyggja og getur dregið þau til dauða.

Skýjastemning á tindi Heklu en þar bræðir jarðhiti göt í snjóþekjuna og rýkur bókstaflega úr fjallinu.
Mynd/TG

Þetta er einnig frábær fjallaskíðaleið en á vorin geta slóðar að fjallinu verið ófærir vegna snjóa. Fáfarnari og lengri leið liggur frá bænum Næfurholti en þá þarf að fara þar yfir úfin hraun suður af fjallinu. Loks er afar torfær jeppaleið að norðvesturhlíðum Heklu en þar eru bröttustu fjallaskíðabrekkurnar.

Það lætur engan ósnortinn að standa á tindi Heklu en þar sést rjúka úr gígunum og minnir á hitann sem leynist í iðrum fjallsins. Útsýnið er frábært, meðal annars yfir Suðurlandsundirlendið en einnig sjást margir af stærstu jöklum landsins, Jarlhettur, Krak­atindur og Kerlingarfjöll.