Verj­endur Donalds Trump, Banda­ríkja­for­seta, segja að á­kæran á hendur honum sé ó­lög­leg og hættu­leg til­raun til þess að snúa við niður­stöðu for­seta­kosninganna 2016, og árás á rétt banda­rísku þjóðarinnar til að velja sér for­seta.

„Þetta er ó­svífin og ólögmæt tilraun til að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna 2016 og til að hafa á­hrif á kosningarnar í ár,“ segir í málsvörninni.

Trump var á­kærður fyrir að hafa haldið aftur af 400 milljón dollara varnar­að­stoð til Úkraínu þar til stjórn­völd í landinu hefðu hafið rann­sókn á Joe Biden, fyrr­verandi vara­for­seta. Joe Biden er jafn­framt talinn vera lík­legur keppi­nautur Trump í for­seta­kosningunum næsta vetur. Þannig var Trump talinn hafa mis­notað völd for­seta­em­bættisins í eigin þágu.

Þá var hann einnig á­kærður fyrir að hindra fram­gang rann­sóknar full­trúa­deildarinnar, sem á­kærði for­setann.

Hætta á að ákærur verði misnotaðar

Í másvörn for­setans, sem var birt á vef Hvíta hússins, fer hann fram á að báðum á­kæru­liðum verði vísað frá. Hann segir fyrri á­kæru­liðinn mark­lausan þar sem hann sé ekki sakaður um neina glæpi. Hvað varðar seinni á­kæru­liðinn þá segist hann einungis hafa verið að nýta sér rétt sinn til að við­halda leynd um það sem fer fram á for­seta­skrif­stofunni.

Að lokum segir að verði á­kærunum verði ekki vísað frá sé hætta á að á­kærur um em­bættis­glöp verði í fram­tíðinni notaðar í pólitískum til­gangi.