Klaka­stífla í Hvít­á hefur gert það að verkum að áin flæðir nú yfir bakka sína á milli bæjanna Brúna­staða og Austur­kots.

Frí­mann Birgir Baldurs­son varð­stjóri hjá lög­reglunni á Suður­landi segir að ekki sé fólks­bíla­fært til Austur­kots og að vatn flæði einnig yfir veginn að Odd­geirs­hólum. RÚV greindi frá rétt í þessu en þar má einnig sjá myndbandsupptöku af flóðinu.

Hafa ekki miklar áhyggjur eins og staðan er núna

Lög­reglan á svæðinu hefur þegar rætt við bændur á svæðinu en þeir hafa ekki miklar á­hyggjur af flóðinu. Frí­mann segir að bændurnir telji enga hættu stafa af flóðinu eins og staðan er núna en að ef vatna­vextir aukist gæti það orðið að mögu­leika.

Bæði veður­stofan og Lög­reglan fylgist með flóðinu og verður staðan aftur skoðuð í kvöld.