Á Austurlandi er gnægð fallegra fjallstinda og úrvalið eins og að opna konfektkassa. Hátt í tuttugu þeirra eru kenndir við goð líkt og nöfnin Goðaborg, Goðatindar og Goðafjöll bera vott um. Þessir helgu fjallstindar eru næstum allir staðsettir í fjörðunum, að minnsta kosti einn í flestum þeirra. Hvað þekktastur er Goðaborg milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar en hún er jafnframt eitt besta útsýnisfjall á Austurlandi. Líkt og aðrar austfirskar Goðaborgir er hún prýdd klettum efst sem umkringdir eru hvítum sköflum. Úr fjarlægð minnir tindurinn því á hof sem voru goðahús ásatrúarmanna eða virki. Nafngiftina má rekja til heiðni en í klettahofum sem þessum má sjá fyrir sér íverustað goðanna með útsýni yfir landið og miðin. Nafngiftin gæti þó einnig tengst siðaskiptum þegar bændur köstuðu líkneskjum sínum fram af klettum Goðaborga.

Fjallganga á Goðaborg er frábær skemmtun en á vorin eru snævi þaktar hlíðar hennar frábærar fjallaskíðabrekkur. Hún er með hæstu tindum Austurlands, 1132 metra há, og er hluti af stórbrotinni fjallakeðju sem skilur að Norðfjörð og Mjóafjörð. Neðan fjallgarðsins Norðfjarðarmegin er Neskaupstaður, 1.500 manna útgerðarbær sem löngum var eitt helsta vígi sósíalista á Íslandi. Rauður bærinn var því stundum kallaður í gríni Litla Moskva.

Hentugasta gönguleiðin upp á Goðaborg liggur innarlega í Norðfirði, við Tandrastaði í Fannardal. Skammt norðan við brúna yfir Norðfjarðará er akvegur sem liggur inn að Tandrastaðaá og má leggja bílum þar. Gönguleiðin liggur með fram ánni og er hún síðan stikluð á steinum. Brekkurnar eru grónar framan af og birki áberandi. Ofar blasa við fallegir fossar sem taka sig vel út með píramídalaga Kaffell í bakgrunni. Norðan Kaffells er hrjóstrugur Gæsadalur en í stað þess að halda inn eftir honum er stefnt á klettabelti sunnan Goðaborgar. Ofan klettanna minnkar brattinn og hátindinum er náð með því að fylgja hrygg að austanverðu. Útsýnið efst er stórkostlegt og sér yfir stóran hluta Austurlands, þar á meðal ofan í Mjóafjörð og yfir Gerpissvæði, en einnig yfir fjallstinda eins og Bagal, Kistufell, Svartafjall, Hólmatind og Hádegisfjall. Gangan er 8 kílómetrar fram og til baka og tekur 5-6 klukkustundir. Í lok göngudags er tilvalið að skella sér í sund í Neskaupstað og jafnvel kíkja á málverkasafn Tryggva Ólafssonar sem fæddist þar, en hann telst til þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar.

Ganga á Goðaborg er sannkölluð fjallaveisla, ekki síst á vorin á fjallaskíðum.
Ofan af Goðaborg sér meðal annars niður í Mjóafjörð.