Að minnsta kosti sex létust og 12 manns særðust eftir hvirfilbyl sem reið yfir Suðurríki Bandaríkjanna í gær. Stormurinn geisaði bæði í Alabama og Georgíu og eyðilagði meðal annars heimili og raforkuver.
Veðurstofa Bandaríkjanna greindi frá 33 mismunandi stormum í gær og hefur einnig gefið út aðra viðvörun fyrir Georgíu, Suður-Karolínu og Norður-Karolínu fyrir næstu daga.

Bærinn Selma í Alabama-fylki varð einnig fyrir barðinu á hvirfilbylnum. Selma á sér fræga sögu í borgararéttindahreyfingu sjöunda áratugarins en mjög blóðug átök áttu sér stað árið 1965 þegar Martin Luther King leiddi þúsundir mótmælenda yfir Edmund-Pettus brúnna. Hönnun brúarinnar var þannig að mótmælendur sáu ekki lögreglumennina sem biðu eftir þeim fyrr en þau voru komin hálfa leið yfir hana og var dagurinn nefndur „Blóðugi sunnudagurinn“.
James Perkins, bæjarstjóri Selmu, sagði að enginn hafi látist í borginni sjálfri en mikið hafi verið um skemmdir.