Þau sem fæðast á hlaupársdag koma í heiminn með félagslegan skotspón á bakinu. Samkvæmt gregoríanska tímatalinu sem við á Vesturlöndum styðjumst við eiga þessi svokölluðu hlaupársbörn einungis afmæli á fjögurra ára fresti. Það þarf ekki mikinn grínista til að reiða til þessa ódýra höggs að segja að tólf ára barn sé einungis þriggja ára þar sem það hafi aðeins átt þrjá afmælisdaga.

Fréttablaðið hafði uppi á fulltrúa frá þessum ofsótta minnihlutahóp og komst að því hvernig í ósköpunum hlaupársbörn takast á við daglegt líf.

Finnst sem hún eldist ekki

„Mér finnst ég alltaf jafn ung, það er bara þannig,“ segir Hildur Magnúsdóttir glöð í bragði. Hún er bæði leikkona í leikhópnum RaTaTam og hlaupársbarn. „Hversu gömul sem ég verð er eins og ég eldist ekki enda er ég bara frábær!“ Afmælisdeginum fylgir þó gjarnan hvimleitt grín. „Þreyttasti brandarinn er sá þegar fólk segist ekki þurfa að gefa manni afmælisgjöf því maður eigi tæknilega ekki afmæli. Mér fannst það eiginlega leiðinlegast þegar ég var lítil,“ segir Hildur sem hafði ekki mikið gaman af afmælisdeginum sínum á yngri árum.

Þreyttasti brandarinn er sá þegar fólk segist ekki þurfa að gefa manni afmælisgjöf.

Aðspurð segir Hildur að þegar ekki var hlaupár hafi 28. febrúar alltaf verið valinn til að halda upp á afmælið frekar en 1. mars. „Af því að það er síðasti dagurinn í febrúar. Eftir að ég varð eldri varð það svo yfirleitt bara þegar það hentaði mér best,“ segir hún.

Raggi Bjarna stendur upp úr

Ein afmælisminning stendur þó upp úr hjá Hildi. „Þegar ég varð tuttugu og fjögurra ára gömul, eða sex hlaupára, hafði ég verið með Ragga Bjarna á sýningu á Hótel Sögu,“ segir Hildur. „Við sungum svo saman og hann söng fyrir mig afmælissönginn,“ segir Hildur sem minnist Ragga hlýlega.

Hildur segist því miður ekki vita til mikillar samstöðu meðal hlaupársafmælisbarna. „Ég þekki eiginlega ekki marga sem eiga afmæli á þessum degi. Það væri kannski ráð að stofna Facebook-grúppu!“ segir Hildur og hlær.

Fréttablaðið óskar Hildi og öðrum hlaupársbörnum innilega til hamingju með afmælisdaginn.