Alma D. Möller, landlæknir, hvetur fólk til nærgætinnar umræðu er kemur að þeim einstaklingum sem smitast hafa af Covid-19 og verða fyrir því að smita aðra.

Hún segir að umræðan hafi gengið nokkuð vel í byrjun faraldursins en hafi verið með öðrum hætti síðastliðna daga þar sem einstaklingar hafi jafnvel verið nafngreindir.

Hún biður fjölmiðla og landsmenn alla til að sýna nærgætni og reyna að setja sig í spor þeirra sem fyrir þessu verða.

„Slík umræða er ótæk fyir þann sem fyrir því verður, vegna persónuverndarsjónarmiða og annarra sjónaramiða. Þetta skapaði einnig aukið álag á smitrakningarteymið."

„Covid-19 hefur marg sannað fyrir okkur hversu lúmskur sjúkdómurinn er og það verður svo sannarlega ekki við öllu séð. Sem betur fer hafa margir veitt stuðning og sýnt þessu skilning."

Hvetur fólk til þess að fara varlega

Alma tekur undir með sóttvarnarlækni að skerpa þurfi á upplýsingagjöf til þeirra sem koma til landsins.

Hún segir að eins og er telji þau óþarfi að setja þá sem tilheyra sérstökum áhættuhópi í verndarsóttkví eins og gert var þegar faraldurinn stóð sem hæst.

„Ég vil frekar hvetja til þess að fólk fari varlega og enn og aftur hugi vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, forðist mannþröng og viðhafi tveggja metra reglunni eins og kostur er."

Hún minnir fólk á að kynna sér þær leiðbeiningar sem er að finna inni á landlaeknir.is.