Sagnfræðingafélag Íslands bætast í hóp þeirra sem fordæma útgáfu áróðursbókarinnar Tröllasaga tuttugustu aldarinnar eftir bandaríska rafmagnsverkfræðinginn Arthur R. Butz í þýðingu Björns Jónssonar.

„Auk rangfærslna og sögulegrar afbökunar inniheldur bókin fasískan áróður og gyðingahatur.“

Bókin, sem heitir á upprunarlega máli sínu The Hoax of the Twentieth Century, kom út árið 1976 og dregur í efa að Helförin hafi átt sér stað. Hún er væntanleg á íslenskan bókamarkað en er bönnuð í Kanada og Þýskalandi og hefur verið tekin af sölusíðu Amazon. Hún var auglýst í Bókatíðindum í ár undir Fræði og bækur almenns efnis.

Þýðandinn vildi lítið segja þegar blaðamaður DV hringdi í hann í vikunni. Sagnfræðingafélagið segir bókina engan veginn standast þær fræðilegar kröfur sem gerðar eru til sagnfræðirita eða fræðrita almennt.

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félagsins íslenskra bókaútgefenda, sagði í samtali við Vísi að kynning og efnistök hafi aldrei verið ritskoðuð í sögu útgáfu Bókatíðinda.

Bókin birtist í bókatíðindum undir „Fræði og bækur almenns efnis“

Skora á stjórnvöld að efla sögukennslu

Sagnfræðingafélagið bendir á að fjölmargar rannsóknir og vitnisburðir sjónarvotta afsanna allt það sem haldið er fram í bókinni. „Auk rangfærslna og sögulegrar afbökunar inniheldur bókin fasískan áróður og gyðingahatur.“ Félagið hvetur til gagnrýninnar og upplýstrar umræðu um efni bókarinnar og annarra af svipuðu tagi.

Sagnfræðingafélagið skorara á stjórnvöld að efla sögukennslu í grunn- og framhaldsskólum þar sem mikilvægasta verkfærið gegn áróðursritum sé þekking.

„Til að upplýst umræða geti átt sér stað þarf almenningur og fræðasamfélagið að hafa í höndum þau verkfæri sem þarf til að bregðast við augljósum sögufölsunum eða -afbökun.“