Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla - Landssamtaka foreldra, hvetur skóla og menntayfirvöld til að leggja áherslu á félagslega virkni, lífsleikni og andlega heilsu og slaka aðeins á námskröfum „á meðan við komumst í gegnum mesta storminn.“

Hrefna ræddi um geðheilsu barna og unglinga í faraldrinum á upplýsingafundi almannavarna í morgun og sagðist hafa áhyggjur af því álagi sem heimili eru undir. Að mati samtakanna ætti geðheilsa barna og unglinga að vera í forgangi og þurfi því að auka stuðning við kennara og nemendur og bæta í starfsmannaflóru skólanna.

„Unnið hefur verið þrekvirki við að halda skólunum gangandi í síbreytilegum ástæðum. Óvissan er mikil og veldur talsverðu álagi og það er vert að hafa í huga að börn upplifa streitu oft öðruvísi en fullorðnir,“ sagði Hrefna.

Hrefna segir mikilvægt að börn fái jákvæð viðbrögð við spurningum og að fullorðnir svari þeim eftir bestu getu. Eðlilegt er að börn og unglingar finni fyrir gremju eða kvíða og þurfi aðstoð við að halda sér í rútínu.

Sömuleiðis þurfa foreldrar og forráðamenn stuðnings með leiðsögn um nám barna, sem fer nú í auknum mæli fram með heimanámi og fjarnámi.

„Þeir eru margir tölvupóstarnir og öppin sem þarf að huga að þessa dagana. Sama gildir um nemendur og okkar fullorðna fólkið: mörg verkefni á sama tíma valda streitu.“