„Það þarf að ná samningum strax við hjúkrunarfræðinga en í kvöld ætlum við að fara út í dyragætt, út á svalir, klukkan 7, og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki okkar,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem ræddi um málefni hjúkrunarfræðinga í umræðum um störf þingsins á þingfundi í dag.

Enn einn árangurslaus samningafundur fór fram nú á dögunum á milli samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríksins. Jón Þór segir það óboðlegt.

Boðað hefur verið til samningafundar í dag kl 13:00 en í kvöld er boðað til lófataks til heiðurs heilbrigðisstarfsfólki landsins.

Jón Þór segir að heilbrigðisstarfsfólk Íslands eigi svo sannarlega skilið lófatak. Eftir niðurskurðinn í hruninu hafi allir búist við því að heilbrigðiskerfið myndi hrynja. Það hafi þó ekki gerst og var það heilbrigðisstarfsfólki að þakka.

„Við getum treyst heilbrigðisstarfsfólkinu okkar. Það eru heilbrigðisstarfsmenn sem við getum alltaf leitað til og treyst á til að standa sig,“ sagð Jón Þór og bætti við að nú væri kominn tími til að spýta í lófana og semja við hjúkrunarfræðinga.