Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, segist fast­lega gera ráð fyrir því að Kim Jong-un og Norður-Kóreu­menn standi við skuld­bindingar sínar er lúta að kjarna­af­vopnun á Kóreu­skaga. 

Kim er sagður í­huga við­ræður sínar og sam­komu­lag við Donald Trump Banda­ríkja­for­seta vand­lega þessa dagana. Talið er að hann muni von bráðar til­kynna hvort þeir hyggist standa við sam­komu­lagið eða snúa sér að kjarn­orku- og eld­flauga­til­raunum. 

Vara­utan­ríkis­ráð­herra Kim, Choe Sun-hui, sagði í dag að sam­band Kim og Trump væri enn gott. Sömu sögu væri ekki hins vegar að segja um álit hans á Pompeo og þjóðar­öryggis­ráð­gjafanum John Bol­ton. 

Choe segir þá hafa búið til „and­rúms­­loft sem ein­­kenndist af fjand­­skap og tor­­tryggni“ á fundi leið­toganna í Hanoi í Víet­nam sem upp úr slitnaði. 

Um var að ræða annan fund þeirra Kim og Trumps. Þeir komu saman í Singa­púr síðasta sumar á sögu­­legum fundi og til­­kynntu þeir að honum loknum um kjarna­af­vopnun á Kóreu­­skaga. 

Enn hefur ekki verið út­listað með skýrum hætti í hvaða skrefum hún fer fram og þá hafa þeir tekist á um hvernig sam­bandi ríkjanna skuli hagað á meðan. 

Að fundi loknum í Hanoi sögðu full­­trúar Norður-Kóreu að þeir hafi krafist þess að við­­skipta­þvingunum gagn­vart þeim yrði af­létt að hluta til. Trump sagði þá hins vegar hafa krafist að þvingununum yrði af­létt að fullu og slíkt kæmi ekki til greina.