„Auð­vitað er fjöl­skylda mín hrædd. Fólk vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar talí­banarnir komu í gær og knúðu dyra,“ segir Sayed Khanog­hli, tví­tugur Afgani, sem kom til Ís­lands sem flótta­maður árið 2018.

Talíbanar í Afgan­istan hafa verið í stórsókn undanfarna daga og náðu þeir höfuðborginni Kabúl á sitt vald í dag.

Sayed er fæddur í Faryab-héraði í norð­vestur­hluta Afgan­istans, en talí­banar náðu svæðinu á sitt vald í gær. Hann segir að fjöl­skylda hans og vinir í Afgan­istan séu hræddir um að eymdin ein muni bíða þeirra komist tali­banar til al­gjörra valda í landinu. Hann segir að mörgum sé brugðið yfir því hversu hröð at­burða­rásin hefur verið að undan­förnu. Sayed hvetur ís­lensk stjórn­völd til að láta í sér heyra og bregðast við.

„Það veit í raun enginn hvers vegna þetta er að gerast. Það er eins og þetta sé einn stór pólitískur leikur. Á einni viku hafa þeir tekið yfir 30 héruð án þess að til nokkurra á­taka hafi komið. Yfir­völd eru hætt að berjast og virðast hafa gefist upp.“

Réttindi fólks skert veru­lega

Talí­banar komust fyrst til valda í Afgan­istan árið 1996 og ein­kenndist stjórn þeirra, allt til ársins 2001, af strangri túlkun íslamskra laga og harka­legum refsingum við minnstu brotum. Í um­fjöllun Erlings Er­lings­sonar, hernaðar­sagn­fræðings og fyrr­verandi starfs­manns Sam­einuðu þjóðanna og NATO í Afgan­istan, á Vísinda­vefnum er bent á að konum hafi verið bannað að vinna og stúlkum bannað að stunda nám. Þá hafi marg­vís­leg mann­réttindi íbúa verið skert.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Sayed að Afganir óttist að margt kunni að breytast til hins verra komist talí­banar til frekari á­hrifa eins og flest bendir til. „Lýð­ræðis­ríki mun breytast í al­ræðis­ríki á einu auga­bragði,“ segir hann og óttast mjög um af­leiðingarnar fyrir konur landsins. Greint hefur verið frá því að konum hafi þegar verið meinað að yfir­gefa heimili sín nema í fylgd með karl­manni á þeim svæðum sem tali­banar hafa tekið yfir. Þá hefur þeim verið gert að klæðast búrkum.

„Í hverri einustu borg sem þeir hafa náð völdum í hafa þeir beðið fjöl­skyldur um að flagga séu ungar stúlkur á heimilinu,“ segir Saeyed. Hann segir að þetta sé gert svo liðs­menn talí­bana eigi auð­veldara með að leita sér kvon­fangs.

Ó­vissan mikil

Að­spurður hvort eitt­hvað svipað gæti verið í upp­siglingu og árið 1996, þegar talí­banar lýstu yfir stofnum Íslamska emír­dæmisins Afgan­istan, segir Sayed að munurinn nú sé sá að yfir­takan, ef svo má segja, sé í boði af­ganskra yfir­valda. „Það er erfitt að spá ná­kvæm­lega fyrir um hvað gerist og ó­vissan er sér­stak­lega mikil meðal mennta­fólks í landinu,“ segir hann.

Sayed kallar eftir við­brögðum al­þjóða­sam­fé­lagsins í þeirri krísu sem er yfir­vofandi fyrir íbúa landsins. Hvetur hann lönd heimsins til að taka á móti þeim Af­gönum sem vilja ekki vera undir hæl talí­bana í landinu.

Þekkir sjálfur grimmd talí­bana

Saeyd er að­eins tví­tugur en hann segist hafa yfir­gefið Afgan­istan árið 2016 eftir að frændi hans var skotinn til bana fyrir framan hann af liðs­mönnum talí­bana. Hann segir að fleiri úr fjöl­skyldu hans hafi hlotið sömu ör­lög. Sayed kom til Ís­lands í desember 2018 og hefur hann meðal annars látið réttindi flótta­fólks sig varða og starfað með Ís­lands­deild Am­ne­sty International svo fátt eitt sé nefnt.

Að­spurður hvað Ís­land geti gert hvetur hann ís­lensk stjórn­völd til að vera ekki bara á­horf­endur heldur bjóða fram að­stoð sína. „Ef Ís­land getur tekið á móti fólki, þó ekki nema kannski 20 fjöl­skyldum þá er hægt að tryggja örugga og bjarta fram­tíð fjölda fólks.“