Í Torrevieja þar sem fjölmargir Íslendingar búa eða dvelja stendur yfir söfnun á vistum fyrir Úkraínumenn. Bæði til að senda til Úkraínu og til að láta þá hafa sem koma til svæðisins sem flóttamenn.
Íslendingar hafa gefið til söfnunarinnar en Manuel Zerón Sánchez, ræðismaður Íslands í Alicante og Murcia, vonast til þess að þeir gefi í. Meðal þess sem vanti sérstaklega eru vörur fyrir börn. Svo sem barnamatur, púðurmjólk, snuð, pelar, krem, lyf og fatnaður fyrir börn allt að 10 ára.
„Ég reyni að hvetja Íslendinga til þess að koma og gefa í söfnunina, en þetta er ekki auðvelt verkefni,“ segir Manuel.
Það eru samtök Úkraínumanna í Torrevieja sem standa að söfnuninni. Þegar hafa tveir vörubílar fullir af fötum, mat og lyfjum lagt af stað. Samtökin hafa þegar komið þakklætisvotti til Íslendingasamfélagins fyrir þeirra framlag.
Þörfin er til að mynda mikil á lækningavörum og lyfjum. Svo sem verkjalyfjum, sprautum, sárabindum, hreinlætisvörum og sótthreinsandi vökvum. Einnig af matvælum og fatnaði.
Manuel segir að safnað sé á fleiri stöðum, til dæmis Orihuela borg, þaðan sem hann kemur sjálfur. Flóttamenn séu þegar byrjaðir að koma. „Við eigum von á mun fleiri flóttamönnum á komandi vikum,“ segir hann. „Mestu skiptir koma fjölskyldna og mæðra með börn sem þurfa skjól.“
Söfnunin í Torrevieja fer fram í Calle Vicente Blasco Ibañez N.1.
