Emma Hargrea­ves, móðir 17 ára stúlku sem lést í sumar eftir að hafa tekið MDMA, hvetur for­eldra til að taka um­ræðuna við börn sín um hættuna af eitur­lyfjum. Dóttir Emmu, Lila Grace-Smith, lést þann 4. júní síðast­liðinn eftir að hafa tekið efnið inn á heimili vin­konu sinnar.

Emma ræðir málið við breska blaðið Mail On­line og segist hafa staðið í þeirri trú að Lila væri að fara gista hjá vin­konu sinni og for­eldrar hennar væru heima. Hún stundaði nám í mennta­skóla, var heil­brigð og hraust, átti fjölda vina og átti ekki sögu um að hafa neytt fíkni­efna áður.

Lila veiktist eftir að hafa tekið inn MDMA og kemur fram í um­fjöllun Mail On­lina að vinir hennar hafi verið ragir að hringja eftir sjúkra­bíl af ótta við mögu­legar af­leiðingar. Hún fór í hjarta­stopp og loks þegar tókst að koma henni undir læknis­hendur var hún látin.

„Þetta er eitt­hvað sem maður býst ekki við að komi fyrir sitt barn,“ lýsir Emma í við­talinu og bætir við að Lila hafi verið náin fjöl­skyldu sinni, sér í lagi tveimur yngri bræðrum sínum.

Emma segist með­vituð um það að ung­menni hlusti ekki alltaf á predikanir for­eldra sinna um skað­semi eitur­lyfja. Það allra mikil­vægasta sé þó að ung­menni hiki ekki við að kalla strax eftir að­stoð ef grunur vaknar um að of stór skammtur hafi verið tekinn.

Í um­föllun Mail On­line kemur fram að lög­regla hafi verið með and­lát Lilu til rann­sóknar síðan í sumar en enn sem komið er hefur enginn verið hand­tekinn eða á­kærður vegna málsins.

Í um­fjölluninni er einnig rifjað upp mál 15 ára stúlku, Leuh Hayes, sem lést eftir að hafa tekið inn MDMA árið 2019. Móðir hennar, Kerry Roberts, hefur komið víða fram að undan­förnu og hvatt for­eldra til að ræða við börn sín um á­fengis- og eitur­lyfja­neyslu.