Einar Ó. Þorleifsson, náttúrufræðingur og fuglaáhugamaður, segir kuldatíðina sem nú gangi yfir landið erfiða fyrir mikið af fuglum. Viðbúið sé að margir þeirra hreinlega drepist.
„Þeir hafa það skítt margir og hafa lítið að éta því það er frost og snjór yfir öllu. Til dæmis grágæsir sem hafa verið sífellt meira hér á veturna. Þær eiga bara mjög erfitt uppdráttar. Nema kannski í Reykjavík þar sem fólk er að gefa þeim,“ segir Einar.
„Þannig að það er alveg viðbúið að það drepist svolítið af fuglum þegar er svona langur frostakafli.“
Spurður segist Einar þó ekki hafa of miklar áhyggjur. Fuglar séu duglegir að bjarga sér.
„Sérstaklega ef það er bærilega stillt veður, þá spjara þeir sig. En það er fullt af fuglum sem geta hreinlega ekki lifað af veturinn nema með okkar hjálp. Eins og svartþrestir eða skógarþrestir sem myndu ekki vera hér á veturna ef við værum ekki að gefa þeim,“ segir Einar sem hvetur fólk til að hlúa að fuglunum og fóðra þá.