Einar Ó. Þor­leifs­son, náttúru­fræðingur og fugla­á­huga­maður, segir kulda­tíðina sem nú gangi yfir landið erfiða fyrir mikið af fuglum. Við­búið sé að margir þeirra hrein­lega drepist.

„Þeir hafa það skítt margir og hafa lítið að éta því það er frost og snjór yfir öllu. Til dæmis grá­gæsir sem hafa verið sí­fellt meira hér á veturna. Þær eiga bara mjög erfitt upp­dráttar. Nema kannski í Reykja­vík þar sem fólk er að gefa þeim,“ segir Einar.

„Þannig að það er alveg við­búið að það drepist svo­lítið af fuglum þegar er svona langur frosta­kafli.“

Spurður segist Einar þó ekki hafa of miklar á­hyggjur. Fuglar séu dug­legir að bjarga sér.

„Sér­stak­lega ef það er bæri­lega stillt veður, þá spjara þeir sig. En það er fullt af fuglum sem geta hrein­lega ekki lifað af veturinn nema með okkar hjálp. Eins og svart­þrestir eða skógar­þrestir sem myndu ekki vera hér á veturna ef við værum ekki að gefa þeim,“ segir Einar sem hvetur fólk til að hlúa að fuglunum og fóðra þá.