Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, segir áhyggjuefni að ekki hafi tekist að rekja öll smitin sem hafi greinst undanfarna daga.Þetta kemur fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá greindist 21 smitaður innanlands í dag. Var um helmingur hópsins í sóttkví þegar smitin greindust. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn segir fullt af veiru úti í samfélaginu.
Rögnvaldur segir að mögulega geti verið að almannavörnum sé ekki að berast nógu góðar upplýsingar í smitrakningu. Hvetur hann fólk til að gefa sannar og góðar upplýsingar í smitrakningu.
„Það er enginn að fara að reyna að skamma þig þar eða refsa þér. Þetta þarf bara hundrað prósent samvinnu allra til að vinna þetta vel. Maður veit alveg að sumir upplifa kannski einhverja skömm eða eru með samviskubit. Fólk verður bara að reyna að yfirstíga það og setja hundrað prósent orku í samvinnu við rakningateymið,“ segir Rögnvaldur.
Ekki hafi tekist að rekja öll smitin sem greinst hafi undanfarna daga. Það sé áhyggjuefni. Allt bendi til þess að smit séu að finna í samfélaginu sem ekki hafi tekist að greina. Fólk beri að öllum líkindum sýkt fólk sem ekki viti af því. Segir Rögnvaldur bráðnauðsynlegt fyrir alla að fara í skimun, finni það fyrir minnstu einkennum.