Thelma Guðrún Jónsdóttir, aðstoðamaður á bráðamóttöku Landspítalans var ein af þeim fyrstu til að vera bólusett gegn COVID-19 hérlendis. Hún var bólusett í beinni útsendingu ásamt fjórum öðrum starfsmönnum Landspítalans þann 29. desember síðastliðinn.

Á þriðju­daginn fékk hún sína seinni bólu­setningu með bólu­efni Pfizer en bólu­setja þarf hvern og einn tvisvar sinnum með efninu til að það virki.

Thelma segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hún hafi ekki fundið fyrir neinum auka­verkunum eftir fyrstu bólu­setninguna, ekki einu sinni fundið fyrir verk í hand­leggnum.

Eftir síðari bólu­setninguna hafi hún hins vegar fengið eðli­legar auka­verkanir. „Ég og fleiri úr vinnunni fengum hita, bein­verki og verk í hand­legg eftir seinni bólu­setninguna. Ég var búin að heyra það frá læknum að ó­næmis­kerfið er við­kvæmt eftir fyrri bólu­setninguna og því mætti maður búast við því að finna meira fyrir þeirri seinni," segir Thelma.

Thelma segist miklu frekar verða smá veik en að eiga í hættu á að smitast af COVID-19.
Fréttablaðið/aðsend

Hún segir að þetta sé jafn­framt alls ekki upp­lifun allra, margir hafi ekki fundið fyrir neinum auka­verkunum í kjöl­far bólu­setningarinnar.

Hún segist miklu frekar vilja liggja heima í nokkra daga með væg flensu­ein­kenni en að smitast af CO­VID-19 og hvetur alla til að þiggja bólu­setningu þegar að því kemur.

„Ég finn að ég er með meiri sjálfs­traust þegar ég þarf til dæmis að fara í búðina og þess háttar. Ég virði að sjálf­sögðu enn þá reglur og geng með grímu og spritta mig eins og brjál­æðingur. Þó ég sé orðin ónæm fyrir veirunni þá get ég því miður borið hana á milli. Það er mikil­vægt að hafa það í huga. Ég verð bara hér heima undir sæng næstu daga og hlakka til að jafna mig, orðin bólu­sett fyrir CO­VID," segir Thelma að lokum.