Vinnu­eftir­litið hefur hleypt af stað nýrri her­ferð gegn kyn­ferðis­legri á­reitni á vinnu­stöðum undir yfir­skriftinni: #Tökum­HöndumSaman. Til­gangurinn er að hvetja vinnu­staði til að grípa til að­gerða með for­vörnum, fræðslu og mark­vissum við­brögðum þegar slík mál koma upp.

Í til­kynningu frá Vinnu­eftir­litinu um verk­efnið segir að á sama tíma og öflug vitundar­vakning hefur átt sér stað í sam­fé­laginu um á­hrif kyn­ferðis­legrar á­reitni vill Vinnu­eftir­litið leggja sín lóð á vogar­skálarnar í bar­áttunni gegn slíkri hegðun.

Í sam­starfi við sam­tök aðila vinnu­markaðarins, em­bætti land­læknis, Jafn­réttis­stofu og fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytið hleypa þau því her­ferðinni af stað í dag.

„Við höfum átt gott sam­starf við alla þá sem standa að þessu mikil­væga verk­efni með okkur en mark­miðið er að við náum að endur­spegla þarfir sem flestra vinnu­staða í þessu til­liti. Heil­brigð vinnu­staða­menning leggur grunninn að öruggu og heilsu­sam­legu vinnu­um­hverfi og stuðlar að því að öll komi heil heim. Við vonumst til að verk­færin veiti stjórn­endum og starfs­fólki nauð­syn­legar upp­lýsingar og stuðning til að grípa til að­gerða og hvetjum öll til að taka höndum saman gegn kyn­ferðis­legri á­reitni á vinnu­stað,“ segir Sara Hlín Hálfdanar­dóttir, sér­fræðingur hjá Vinnu­eftir­litinu sem leiðir verk­efnið fyrir hönd stofnunarinnar.

Að­gerða­vakningunni er ætlað að styðja við at­vinnu­rek­endur, stjórn­endur og starfs­fólk í að fyrir­byggja og bregðast við kyn­ferðis­legri á­reitni í vinnu­um­hverfinu. Nýtt fræðslu­efni hefur því verið þróað og gert að­gengi­legt á vef stofnunarinnar. Þar má einnig finna ýmis ný verk­efni eins og fræðslu­mynd­bönd og staf­rænt flæði­rit fyrir vinnu­staði sem út­skýrir feril máls með mynd­rænum hætti.

„Með að­gerða­vakningunni viljum við hvetja vinnu­staði til að gefa skýr skila­boð um að kyn­ferðis­leg á­reitni sé ekki liðin og að brugðist verði við gerist þess þörf,“ segir Hanna Sig­ríður Gunn­steins­dóttir, for­stjóri Vinnu­eftir­litsins.

„Það er til mikils að vinna því kyn­ferðis­leg á­reitni getur valdið starfs­fólki heilsu­tjóni og haft nei­kvæð á­hrif á árangur, fram­leiðni og orð­spor vinnu­staða.“

Hér að neðan má sjá nýja aug­lýsingu sem er ætlað að vekja at­hygli á her­ferðinni.