Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði í gær að starfsfólk sitt hafi ávallt fylgt öllum reglum og að hann hafi aldrei reynt að hafa óeðlileg áhrif á rannsókn á meintri spillingu innan kanadíska fyrirtækisins SNC-Lavalin.

Jody Wilson-Raybould, fyrrverandi dómsmálaráðherra Kanada, mætti fyrir þingnefnd á miðvikudaginn vegna málsins þar sem hún sagði að hún hafi orðið fyrir barðinu á ítrekuðum og viðvarandi þrýstingi og jafnvel hótunum frá toppum innan ríkisstjórnarinnar sem vildu að fyrirtækið yrði ekki sótt til saka vegna málsins.

Trudeau sagðist ósammála þessari lýsingu og tók fram að hann liti svo á að ráðamenn hefðu einvörðungu verið að reyna að standa vörð um kanadísk störf, ekki hagsmuni fyrirtækisins sjálfs. Stjórnarandstæðingar hafa krafist afsagnar vegna málsins.