Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin, WHO, hefur hvatt Evrópu­búa til að nota grímur á sam­komum með fjöl­skyldunni yfir jólin en til­mæli stofnunarinnar koma í ljósi þess að fjöldi smita víðs vegar í Evrópu eykst nú hratt. Stofnunin varar við því að mikil hætta sé á annarri bylgju far­aldursins í álfunni.

„Vetrar­há­tíðirnar er tími fyrir fjöl­skyldur, sam­fé­lag og endur­nýjun. Í ár, meira en áður fyrr víða í Evrópu, er fólk spennt fyrir því að safnast saman og velta fyrir sér árinu sem hefur bæði verið stór­merki­legt og erfitt,“ segir í til­kynningu frá stofnuninni en allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að stöðva út­breiðslu veirunnar.

Stofnunin í­trekar mikil­vægi þess að allir séu á varð­bergi þar sem á­kvarðanir hvers og eins hafa á­hrif á aðra í kringum þá og fram­gang far­aldursins. Ráð­leggingar stofnunarinnar snúa bæði að sam­komum innan­húss og utan en um­fram allt er fólk hvatt til þess að huga að ein­stak­lings­bundnum sótt­vörnum, ekki síst í kringum nána aðila.

Rúmlega 21 milljón smit í Evrópu

Eins og staðan er í dag hafa rúm­lega 73,6 milljón til­felli kóróna­veiru­smits og tæp­lega 1,64 milljón dauð­fs­föll vegna CO­VID-19 verið skráð í heiminum. Sam­kvæmt tölum smit­sjúk­dóma­mið­stöðvar Evrópu, ECDC, eru stað­fest til­felli í Evrópu rúm­lega 21,4 milljón talsins.

Víða um heim er nú beðið í of­væni eftir komu bólu­efnis en Lyfja­stofnun Evrópu hefur greint frá því að tekin verði á­kvörðun um bólu­efni Pfizer og BioN­Tech síðar í mánuðinum auk þess sem á­kvörðun um bólu­efni Moderna og bólu­efni AstraZene­ca mun verða tekin í janúar.

Þó nokkur lönd hafa gripið til hertra að­gerða í vikunni vegna fjölda nýrra til­fella. Í Hollandi, til að mynda, hefur út­göngu­bann verið sett á til 19. janúar og mega að­eins tveir koma saman að hverju sinni. Í Þýska­landi tóku síðan sambærilegar takmarkanir gildi í dag en út­göngu­bann hefur verið sett á til 10. janúar. Sömu sögu má segja í Frakk­landi og á Ítalíu.

Þó hafa ýmis lönd gert undan­þágu á reglunum yfir jólin svo fólk geti verið með fjöl­skyldu sinni en mis­jafnt er eftir löndum hversu mikið er slakað á að­gerðum. Þannig mega til dæmis þrír koma saman í staðinn fyrir tvo í Hollandi og sér­stakar „jóla­kúlur“ verða leyfðar í Bret­landi. Á Ítalíu verða aftur á móti engar breytingar gerðar yfir jólin.