Lyfjastofnun hvetur þungaðar konur til að þiggja bólusetningu gegn Covid-19.
Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að nýjustu öryggisupplýsingar styðji við notkun mRNA-bóluefna hjá barnshafandi konum og að samkvæmt rannsóknum valdi mRNA tækni ekki skaða hjá barnshafandi konum eða ófæddum börnum þeirra.
Mælt er með því að bólusetningin fari fram á annað hvort öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngunnar, en ekki þeim fyrsta.
Vinnuhópur Lyfjastofnunar Evrópu rýndi, samkvæmt frétt Lyfjastofnunar, vandlega nokkrar rannsóknir með um 65.000 barnshafandi konum á ólíkum stigum meðgöngu. Matið leiddi í ljós að ekki virðist aukin áhætta á vandamálum á meðgöngu, fósturláti, fyrirburafæðingum eða aukaverkunum hjá ófæddum börnum í kjölfar bólusetningar með mRNA-bóluefnum gegn COVID-19.
Þrátt fyrir að gögnin hafi nokkrar takmarkanir virðast niðurstöður rannsóknanna áþekkar sé horft til þessara afleiðinga segir í tilkynningunni.
Minnki líkur á sjúkrahúsinnlögn og andláti
Þá segir að rannsóknirnar hafi enn fremur leitt í ljós að mRNA-bóluefnin minnki líkur á sjúkrahúsinnlögnum og andlátum jafnmikið hjá barnshafandi konum og öðrum.
Algengustu aukaverkanir hjá þunguðum konum eru jafnframt svipaðar og hjá öðrum bólusettum, t.d. verkur á stungustað, þreyta, höfuðverkur, roði og þroti á stungustað, vöðvaverkir og kuldahrollur. Yfirleitt eru þessar aukaverkanir vægar eða miðlungsmiklar og ganga til baka nokkrum dögum eftir bólusetningu.
Fyrr í mánuðinum sagði Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans, að óbólusettur konur væru nærri vikulega illa haldnar af Covid-19 á spítalanum og hvatti þær til að þiggja bólusetningu. Í tilkynningu Lyfjastofnunar segir að barnshafandi konur séu í meiri áhættu en aðrir að fá Covid-19, sérstaklega á öðrum og þriðja þriðjungi meðgöngu.
„Því er mæst til þess að þungaðar konur, og konur sem kunna að verða þungaðar á næstunni, þiggi bólusetningu gegn COVID-19 í samræmi við leiðbeiningar embættis landlæknis. Í þeim leiðbeiningum er mælt með með að bólusetning fari fram eftir að fyrstu 12 vikum meðgöngu er lokið,“ segir í tilkynningunni sem er hægt að kynna sér hér.