Lyfja­stofnun hvetur þungaðar konur til að þiggja bólu­setningu gegn Co­vid-19.

Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að nýjustu öryggis­upp­lýsingar styðji við notkun mRNA-bólu­efna hjá barns­hafandi konum og að sam­kvæmt rann­sóknum valdi mRNA tækni ekki skaða hjá barns­hafandi konum eða ó­fæddum börnum þeirra.

Mælt er með því að bólu­setningin fari fram á annað hvort öðrum eða þriðja þriðjungi með­göngunnar, en ekki þeim fyrsta.

Vinnu­hópur Lyfja­stofnunar Evrópu rýndi, sam­kvæmt frétt Lyfja­stofnunar, vand­lega nokkrar rann­sóknir með um 65.000 barns­hafandi konum á ó­líkum stigum með­göngu. Matið leiddi í ljós að ekki virðist aukin á­hætta á vanda­málum á með­göngu, fóstur­láti, fyrir­bura­fæðingum eða auka­verkunum hjá ó­fæddum börnum í kjöl­far bólu­setningar með mRNA-bólu­efnum gegn CO­VID-19.

Þrátt fyrir að gögnin hafi nokkrar tak­markanir virðast niður­stöður rann­sóknanna á­þekkar sé horft til þessara af­leiðinga segir í til­kynningunni.

Minnki líkur á sjúkrahúsinnlögn og andláti

Þá segir að rann­sóknirnar hafi enn fremur leitt í ljós að mRNA-bólu­efnin minnki líkur á sjúkra­hús­inn­lögnum og and­látum jafn­mikið hjá barns­hafandi konum og öðrum.

Al­gengustu auka­verkanir hjá þunguðum konum eru jafn­framt svipaðar og hjá öðrum bólu­settum, t.d. verkur á stungu­stað, þreyta, höfuð­verkur, roði og þroti á stungu­stað, vöðva­verkir og kulda­hrollur. Yfir­leitt eru þessar auka­verkanir vægar eða miðlungs­miklar og ganga til baka nokkrum dögum eftir bólu­setningu.

Fyrr í mánuðinum sagði Hulda Hjartar­dóttir, yfir­læknir á fæðingar­deild Land­spítalans, að óbólu­settur konur væru nærri viku­lega illa haldnar af Co­vid-19 á spítalanum og hvatti þær til að þiggja bólu­setningu. Í til­kynningu Lyfja­stofnunar segir að barns­hafandi konur séu í meiri á­hættu en aðrir að fá Co­vid-19, sér­stak­lega á öðrum og þriðja þriðjungi með­göngu.

„Því er mæst til þess að þungaðar konur, og konur sem kunna að verða þungaðar á næstunni, þiggi bólu­setningu gegn CO­VID-19 í sam­ræmi við leið­beiningar em­bættis land­læknis. Í þeim leið­beiningum er mælt með með að bólu­setning fari fram eftir að fyrstu 12 vikum með­göngu er lokið,“ segir í til­kynningunni sem er hægt að kynna sér hér.