Ungverska þingið samþykkti í gær lög sem banna hinsegin námsefni í skólum en samkvæmt lögunum er óheimilt að deila upplýsingum með einstaklingum undir 18 ára aldri sem yfirvöld telja ýta undir samkynhneigð eða kynleiðréttingu, eins og því er lýst í umfjöllun Guardian. Lagafrumvarpið var samþykkt með 157 atkvæðum gegn einu.
Stjórn Samtakanna ‘78 hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ástandsins í málefnum hinsegin fólks í Ungverjalandi. Samtökin lýsa „yfir djúpstæðum áhyggjum af þróun mála í Ungverjalandi, þá sérstaklega af nýsamþykktum lögum sem eru gróf aðför að tilverurétti hinsegin fólks í landinu og banna í reynd sýnileika þeirra og réttindabaráttu.“
Stjórnin hvetur íslensk stjórnvöld til að fordæma „þessa skaðlegu lagasetningu opinberlega á alþjóðavettvangi og standa þannig vörð um mannréttindi og frelsi fólks til þess að vera það sjálft.“