Hrefna Tryggvadóttir, formaður nemendafélags MH, segir stjórnendur hafi sent nemendum bréf þar sem formlega er beðist afsökunar vegna málsins.

Hún segir skólann á fullu að vinna í málinu og að nemendafélagið hafi fundað mikið með þeim. Þá séu fleiri utanaðkomandi aðilar, sérfræðingar, þeim innan handar.

Að sögn Hrefnu er mikilvægt að upplýsa nemendur um hvað verið sé að gera í málunum. „Það munu verða breytingar en það mætti vera meiri sýnileiki fyrir nemendur.“

Hrefna segir nemendafélagið fagna því að umræðan sé farin af stað. „Við erum ótrúlega glöð og sátt að þessi umræða sé loksins farin af stað. Þetta er nauðsynleg umræða.“

Hvetja alla til að taka þátt

Hrefna ítrekar að umræðan snúist ekki um ákveðin mál eða ákveðna meinta gerendur heldur eigi enginn nemandi að þurfa mæta geranda sínum á göngum skólans. Mikilvægt sé að skoða málið í stóra samhenginu.

„Við í nemendafélaginu, nemendur og skólastjórn erum öll sammála um að þessi umræða má ekki detta niður. Það þurfa í alvörunni að koma breytingar. Við þurfum að sjá einhvers konar breytingar,“ segir Hrefna.

Á morgun klukkan 11 munu nemendur í MH ganga út úr kennslustund og safnast saman fyrir utan aðalinngang skólans til að mótmæla. Hrefna segir fleiri skóla hafa sýnt mótmælunum áhuga og ætli sér að taka þátt. „Við erm að hvetja alla nemendur í öllum skólum til að fara úr tímum til að sína samstöðu,“ segir Hrefna að lokum.

Stjórnendur biðjast afsökunar á fyrstu viðbrögðum

Stjórnendur MH birti opið bréf til nemenda á vef skólans í kvöld en þar segir að skólinn líti kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi mjög alvarlegum augum.

„Stjórnendur, starfsfólk MH og allt skólasamfélagið stendur með þolendum ofbeldis og ef upp koma mál sem tengjast ofbeldi, af hvaða tagi sem er, viljum við taka á þeim. Þessi mál eru viðkvæm, við erum að læra og við viljum gera betur,“ segir í bréfinu.

„Þá hörmum við að núverandi og fyrrverandi nemendur hafa upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni sem hafa komið upp og ekki var tekið á með viðunandi hætti. Við biðjumst innilegrar afsökunar á því. Við munum leggjast á eitt við að vinna vel úr þeim málum sem hafa verið tilkynnt til skólans og bregðast við í samræmi við áætlanir.“

„Skólastjórnendur hafa tekið á móti tillögum nemenda um úrbætur og hvernig megi bæta ferlið þegar upp koma mál af ofangreindum toga. Eftir fund í dag með fulltrúum Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, var ákveðið að skólinn yrði einn af samstarfsaðilum þeirra í aðgerðum gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. SÍF er langt komið með áætlunina sem unnin er af þeirra sérfræðingum og við erum tilbúin í samstarf. Kæru nemendur við viljum jafnframt biðjast afsökunar á fyrstu viðbrögðum okkar á klósettunum á Matgarði,“ segir í bréfinu að lokum.