Tunglið forlag stendur fyrir forvitnilegum bókmenntaviðburði nú á föstudaginn þar sem lesendur eru hvattir til þess að hnupla nýútgefinni bók Tungl forlags.
Nafn bókarinnar er einfaldlega „Hvernig hnupla skal bókum“ eftir David Horvitz en hún kemur út í íslenskri þýðingu Ragnars Helga Ólafsson og Dags Hjartarsonar sem einnig standa að útgáfu hennar.
Dagur segir að með útgáfunni sé Tungl forlag að grípa til aðgerða til auka bókahnupl landsmanna sem samkvæmt gögnum forlagsins sé í sögulegu lágmarki. „Útgáfan er athöfn, og þannig hlýtur hún að þýða eitthvað mikið á sama tíma og hún dæmist til að verða algjörlega merkingarlaus,“ segir hann

Lesendur beðnir að kaupa ekki bókina
Upplagi bókarinnar verður á föstudaginn stillt upp í verslun Eymundsson Austurstræti og er leiðbeinandi útsöluverð 99.999 kr. en henni er öllum frjálst að hnupla. Engin þjófavörn er í bókinni, að henni beinast engar eftirlitsmyndavélar, þeim sem taka bókina ófrjálsri hendi bíða engir eftirmálar, hvorki af hálfu Tunglsis forlags né Eymundssonar.
Varðandi útsöluverðið segir Ragnar að það sé einungis leiðbeinandi „Rétt er að taka fram að viðskiptamódel Tunglsins miðast við rétt hóflegt tap. Of mikil bóksala myndi augljóslega stefna þeirri grunnstoð forlagsins í voða og er því ekki æskilegt að okkar mati,“ segir Ragnar.
Ljóðabók og ekki ljóðabók
Aðspurður um innihald bókarinnar og hverrar tegundar hún sé segir Dagur að bókin sé ekki ljóðabók „Frekar handbók. Þó má segja að þessi handbók feli í sér leiðbeiningar að æfingum í atburðaskáldskap, að hætti Sigurðar Pálssonar, svo jú, þetta er ljóðabók,“ segir hann.
Einnig verður komið fyrir 20 eintökum af bókinni í sýningarrýmum Ikea og hvetur Tungl forlag lesendur að fara með alla fjölskylduna þangað til að stela bókinni skildu þeir finna hana.