Enginn Ís­lendingur hefur enn sem komið er haft sam­band við borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins vegna skotárásarinnar í Emporia verslunarmiðstöðinni fyrr í dag. Níu þúsund Íslendingar búa í Svíþjóð og hafa Vísir og Mbl.is talað við Íslendinga sem voru í verslunarmiðstöðinni þegar skotárásin átti sér stað.

„Það hefur enginn haft sam­band en við hvetjum Ís­lendinga til að hafa sam­band við sína nánustu,“ segir Sveinn H. Guðmarsson hjá borgaraþjónustunni í sam­tali við Frétta­blaðið.

Spurður hversu margir Ís­lendingar búa í Mal­mö segist hann ekki hafa það skráð en að hátt í níu þúsund Ís­lendingar búi í Sví­þjóð og tíu þúsund í Dan­mörku.

Hann segir að það megi geri ráð fyrir því að stór hluti þeirra búi á Kaup­manna­hafnar­svæðinu og á Skáni en Eyrar­sunds­brúin tengir svæðin saman.