Stjórn Öfga hefur sent frá sér yfir­lýsingu vegna Þjóð­há­tíðar í Vest­manna­eyjum sem fer fram nú um helgina.

„Það er bara eitt ár síðan þol­endur og aktív­istar fengu nóg af því að meintum ger­endum sé hampað á stærstu úti­há­tíð landsins. Í fyrsta skiptið var hlustað, eða hvað?“ segir í yfir­lýsingunni.

Öfgar segja þjóð­há­tíðar­nefnd hafa hrifsað alla von frá þol­endum um að geta mætt á þol­enda­væna þjóð­há­tíð með því að hafa mann „uppi á sviði sem hefur í tví­gang verið kærður fyrir nauðgun.“ Sú á­kvörðun sanni að þol­endur skipti þjóð­há­tíðar­nefnd engu máli.

Þá hvetur stjórn Öfga þá sem standa með þol­endum að yfir­gefa brekkuna þegar meintur gerandi stígur á svið. „Hlut­leysi er ekki til. Hlut­leysi þýðir af­staða með meintum geranda.“

Yfir­lýsinguna má lesa hér fyrir neðan:

Hvetjum fólk til að standa með þol­endum og yfir­gefa brekkuna á mið­nætti.

Það er bara eitt ár síðan þol­endur og aktív­istar fengu nóg af því að meintum ger­endum sé hampað á stærstu úti­há­tíð landsins.

Í fyrsta skiptið var hlustað, eða hvað?

Eftir mörg ár af bar­áttu, margar byltingar og ber­skjöldun þol­enda þá var eins og núna væri kannski tími þol­enda kominn? Núna ári síðar er maður uppi á sviði sem hefur í tví­gang verið kærður fyrir nauðgun.

Þema druslu­göngunnar í ár var valda­ó­jafn­vægi. Met­oo byltingin síðast­liðnu 12 mánuði hefur verið af­hjúpun á valda­mönnum sem í krafti valda og sam­fé­lags­stöðu beita of­beldi, fram­lengja of­beldinu með yfir­lýsingum í fjöl­miðlum og í skjóli réttar­kerfis sem verndar þá. Þeir komast upp með það án þess að þurfa nokkurn tímann að axla á­byrgð, á meðan sam­fé­lagið sýpur hveljur yfir breyttu lands­lagi sem kallað er slaufunar­menning.

Þessi meinti nauðgari sem um ræðir gerði akkúrat það. Opin­ber­lega veittist að æru þolanda sem kærði hann fyrir nauðgun og kærði hana svo fyrir rangar sakar­giftir.

Seinna málið fór ekki jafn hátt í um­ræðunni því við sem sam­fé­lag brugðumst þol­endum með því að kok­gleypa við að­förinni sem stóð yfir vikum saman. Hann bjó til upp­skrift fyrir alla hina og mörgum árum síðar eru þessar að­ferðir meintra ger­enda enn við lýði.

Með þessari á­kvörðun hrifsaði þjóð­há­tíðar­nefnd því alla von frá þol­endum um að geta mætt á þol­enda­væna þjóð­há­tíð.

Allt í nafni for­réttinda manns sem hefur aldrei nokkurn tímann axlað á­byrgð.

Öfgar á­samt 130 öðrum konum gerðu á­kall á tón­listar­fólk með yfir­lýsingu síðasta árs.

Að tón­listar­fólk tæki af­stöðu og nýttu sitt vald til þess að hafa á­hrif. Ekkert ykkar hefur sagt eitt einasta orð. Ekkert ykkar hefur notað plat­formið til þess að sýna að þið standið með þol­endum og að þið for­dæmið að menn innan ykkar geira beiti of­beldi.

Slaufunar­menning gegn meintum ger­endum er ekki til. Á­kvörðun þjóð­há­tíðar­nefndar og þögn tón­listar­fólks sannar að þrátt fyrir allar byltingarnar sem þol­endur og aktív­istar hafa staðið fyrir í aldanna rás, að þol­endur skipta ykkur engu máli. Að slaufunar­menningin beinist að þol­endum. Við skiljum því vel á­kvörðun Bleika fílsins að leggja árar í bát þetta árið eftir 10 ár af ó­eigin­gjarnri vinnu í erfiðu lands­lagi. Skila­boðin gætu ekki verið skýrari. Þið tókuð ein­hliða á­kvörðun þegar að þið á­kváðuð að það væri mikil­vægara að hafa meintan nauðgara beran að ofan uppi á sviði að berja á trommur.

Að lokum viljum við hvetja ykkur sem standið með þol­endum að yfir­gefa brekkuna þegar hann stígur á svið. Hlut­leysi er ekki til. Hlut­leysi þýðir af­staða með meintum geranda.