Handritasafn Landsbókasafns Íslands hvetur fólk til að skrásetja og halda utan um minningar og persónulegar heimildir um COVID-19 faraldurinn og senda safninu. Slík gögn geti verið afar gagnleg fyrir fræðimenn og fjölmiðlafólk framtíðarinnar.

„Ég tel að það sé um að gera fyrir fólk sem er í sóttkví og hefur kannski lítið að gera að setja eitthvað niður á blað og senda til okkar,“ segir Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafnsins. En ítrekar þó að safnið sé ekki aðeins að leita eftir efni frá veikum eða þeim sem séu í sóttkví, heldur öllum.

Bragi rifjar upp að árið 2018 voru starfsmenn handritasafnsins að rannsaka árið 1918, í samstarfi við RÚV og Listahátíð. „Okkur var falið að finna áhugaverða fleti þar sem fólk er að lýsa lífinu á þessu ári, í bréfasöfnum, dagbókum og ýmiss konar heimildum, og fundum upplifanir af þeim hamförum sem þá geisuðu.“ En það ár er þekkt fyrir Kötlugos, Frostaveturinn mikla, endalok fyrri heimsstyrjaldar og spænsku veikina.

Þegar COVID-19 faraldurinn kom upp sáu Bragi og samstarfsfólk hans að nú væri gullið tækifæri til að fá fólk til að safna ýmsum heimildum, því þetta sé faraldur sem fjallað verður um í sögubókum framtíðarinnar. „Þetta er sannarlega sögulegur tími og mikilvægt að til séu heimildir um hann,“ segir Bragi.

Landsbókasafnið var stofnað árið 1818 og handritasafnið 1846. Allar götur síðan þá hefur handritasafnið safnað heimildum, og fengið að meðaltali um tvær afhendingar á viku.

„Skriflegar heimildir eru bestar til að tryggja varðveislu,“ segir Bragi og nefnir dagbókarfærslur fólks, útprentaða tölvupósta um röskun á skólastarfi og skjáskot af samfélagsmiðlafærslum sem dæmi. Þetta geti til dæmis fjallað um veikindi í fjölskyldunni, ástand í verslunum og hvers kyns upplifanir eða hugleiðingar um faraldurinn og áhrif hans.

Hægt sé að setja lokunarskilmála, það er að gögnin verði ekki aðgengileg fyrr en eftir ákveðinn tíma, að hámarki 80 ár. Fólk sem sent hefur inn gögn geti ávallt farið á safnið til þess að skoða þau seinna meir.