Neyt­endur eiga að henda kín­verskum far­símum sínum í ruslið og ekki fá sér nýja. Þetta segir varnar­mála­ráðu­neyti Litáen.

Skýrsla var unnin fyrir ráðu­neytið um öryggi 5G-snjall­síma frá kín­verskum fram­leið­endum. Þar kom fram að ein gerð síma frá fram­leiðandanum Xia­omo væri með inn­byggð tól til rit­skoðunar og í einum síma frá Huawei fundust öryggis­gallar. Fyrir­tækin hafna þessu og segir Huawei að símar fyrir­tækisins sendi ekki frá sér not­enda­upp­lýsingar og Xia­omi segist ekki rit­skoða sam­skipti.

„Við mælum með því að kaupa ekki nýja kín­verska síma og losa sig við þá sem þegar hafa verið keyptir hið snarasta,“ segir Margiris Abu­kevicius að­stoðar­varna­mála­ráð­herra Litáen.

Við skoðun ráðu­neytisins kom í ljós að í Mi 10T 5G síma Xia­omi má finna hug­búnað sem finnur og rit­skoðar hug­tök á borð við „Frjálst Tíbet“, „Lengi lifi taí­vanskt sjálf­stæði“ og „lýð­ræðis­hreyfing.“ Í skýrslunni er greint frá meira en 400 hug­tökum sem for­rit í símanum geta rit­skoðað, þar á meðal net­vafri hans.

Mi 10T 5G sími Xia­omi.
Mynd/Xiaomi

Í evrópskri út­gáfu símans er slökkt á þessum mögu­leika en í skýrslunni segir að hægt sé að kveikja á honum hve­nær sem er.

„Xia­omi tæki rit­skoða ekki sam­skipti til eða frá not­endum þeirra. Xia­omi hefur aldrei og mun aldrei tak­marka eða loka fyrir nokkra hegðun not­enda snjall­síma okkar, hvort sem um er að ræða leit, sím­töl, net­notkun eða notkun á sam­skipta­for­ritum frá þriðja aðila,“ segir tals­kona Xia­omi í sam­tali við BBC. Fyrir­tækið upp­fylli kröfur evrópskra per­sónu­verndar­laga að öllu leyti.