Jafnréttisstofa hefur hleypt af stað átakinu Meinlaust? en því er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu, ásamt því að „fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki“ er kemur fram í tilkynningu frá Jafnréttisstofu.
Átakinu var hleypt af stað 30. september og fer að mestu fram á samfélagsmiðlunum. Fólk er hvatt til þess að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust á Instagram.
Reyna að ná til yngri karla
„Við erum að reyna að ná til yngra fólks og sérstaklega yngri karla, en líka kvenna. Því okkur finnst mikilvægt að þær viti að slík hegðun í garð þeirra er ekki ásættanleg. Við erum bæði að benda á þessar birtingarmyndir og afleiðingar og ekki síst samfélagslegu afleiðingarnar. Sem eru þær að konur hafa þurft að hætta í námi eða segja upp störfum. Það eru afleiðingar sem snerta einstaklingana en ekki síst samfélagið allt,“ segir Bryndís Elfa Valdemarsdóttir sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu.
Sögur í myndrænu formi
Á Instagram-síðu átaksins má sjá sögur sem birtar eru í myndrænu formi.
„Þetta eru allt sannar frásagnir, þetta er allt eitthvað sem hefur gerst í raunveruleikanum og margir tengja við. Það er einmitt markmiðið að fá fólk til að opna augun fyrir því sem er ekki meinlaust,“ segir Bryndís.
„Þetta er oft kynferðisleg áreitni sem er orðbundin, sem við erum að sýna. En líka bara kynbundin áreitni, kannski eitthvað sem er ekki beint kynferðislegt en beinist klárlega að konum í meirihluta,“ segir hún.
Fengið góð viðbrögð á stuttum tíma
Þrátt fyrir að átakið sé ný hafið segir Bryndís að þau hafi fengið góð viðbrögð. „Við heyrum að fólk er að hafa samband,“ segir hún.
„Maður veit bara að umræðan er þarna úti á kaffistofum, og við eldhúsborðið og alls staðar vonandi. Við viljum bara efla hana, fá fólk til þess að ræða þetta og þekkja þessar birtingarmyndir og afleiðingarnar.“
„Við vildum benda á þetta sem hefur ekki verið mikið rætt, það er þetta „meinlausa“ sem er falið og hefur verið það en er uppspretta af einhverju meira oft og þetta sem konur þurfa að þola í þessu hversdagslega samhengi alls staðar þar sem þær eru,“ segir Bryndís.
Átakið er eitt verkefna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2020 til 2023.