„Útmeð‘a hafði samband við mig og ég kom með þá hugmynd að útfæra þessar tilfinningar í bótum og myndgera hvert orð og þannig fá fólk til þess að bera þessar tilfinningar utan á sér í stað þess að fela þær,“ segir grafíski hönnuðurinn Viktor Weisshappel, um samstarf sitt við Útmeð‘a, samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins.

Undanfarin þrjú ár hefur Útmeð‘a komið málstaðnum á framfæri með hefðbundnum myndböndum en í ár langaði þeim að prufa eitthvað nýtt. Viktor kom með þá hugmynd að myndgera ástand eða tilfinningar sem fólk byrgir inni og setja á peysur svo fólk geti borið þær með stolti. 

Á morgun verður haldið partý í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu 17 þar sem útkomu peysanna verður fangað. Viðburðurinn sem er ókeypis og opinn öllum byrjar klukkan fimm og stendur yfir til klukkan sjö. Logi Pedro og Young Karin koma fram og Dóri DNA kynnir og grínar en að auki verður Edda Karólína Ævarsdóttir, listakona, með innsetningu um kvíða. Eftir viðburðinn verða bæturnar til sölu í Húrra Reykjavík og allur ágóði sölunnar rennur til Útmeð‘a.

Persónulegar bætur

Bæturnar verða seldar í stykkjatali á morgun en einnig verða seldar peysur á staðnum. Nóg verður af straujárnum á svæðinu svo ekki þarf að taka neitt með, nema ef fólk vill koma eigin með flíkur að heiman til að strauja á. Alls eru ellefu útgáfur af bótum með hugtökum á borð við einmanaleika, kvíða, þunglyndi, reiði og sorg.

„Þetta á að vera svolítið persónulegt, að þú getir valið þér eitthvað sem þú hefur verið að díla við eða einfaldlega ef þú vilt styðja við eitthvað.“

Ýmsir þekktir áhrifavaldar voru fengnir í myndatöku þar sem þau gátu sett saman sína eigin peysu. Viktor segir að fyrirmyndir skipti miklu máli fyrir ungt fólk og með því að láta þekkt fólk bera bæturnar sé auðveldara að ná til þeirra.

„Það var gaman að sjá hvernig fólk skreytti peysurnar, hver á sinn hátt,“ segir Viktor og bætir við að einhverjir hafi sett bæturnar á staði þar sem tilfinningarnar virðast koma frá. Hann nefnir sem dæmi að sumir hafi sett kvíðann á magasvæðið, þaðan sem margir finna fyrir kvíða.

Útmeð'a er sprottið upp úr grasrót félagasamtaka Geðhjálpar og Hjálparsímans og miðar að því að bæta geðheilsu ungs fólks með sérstakri áherslu á forvarnir við sjálfsskaða og sjálfsvíg. 

Viktor segist sjálfur þekkja margar tilfinninganna á bótunum og vonast eftir vitundarvakningu á málstaðnum. „Eins og flestir tengi ég við mikið af bótunum og finnst mikilvægt að opna umræðuna og fá fólk til að tala um vandamálin sín.“