Með því að leggja um­hverfis­skatt á kjöt væri hægt að afla milljarða evra til þess að hjálpa bæði bændum og neyt­endum að fram­leiða og neyta hollari matar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem Tapp Coalition, regn­hlífa­sam­tök dýra­verndunar- og heilsu­sam­taka, létu gera fyrir sig. Hvetja samtökin Evrópusambandið til þess að leggja slíkan skatt á allt kjöt.

Í skýrslunni segir að með skattinum væri hægt að minnka út­blástur gróður­húsa­loft­tegunda um 120 milljón tonn á ári og afla 32 milljörðum evra í skatt­tekjur fyrir aðildar­ríki Evrópu­sam­bandsins.

Í frétt The Guar­dian um skýrsluna segir að kjöt­verð myndi hækka um um það bil fjórðung við skatt­lagninguna, sem myndi koma til sögunnar í nokkrum skrefum næstu tíu árin.

Mest myndi verð á nauta­kjöti hækka, en verð á kjúk­linga- og svína­kjöti myndi hækka minna þar sem slíkur land­búnaður mengar minna, en skýrslan metur kostnað við mengun af kjöt­fram­leiðslu.

Sam­kvæmt skýrslunni ætti að nýta helming fésins sem myndi aflast með skatt­lagningunni í að styðja bændur við að hætta kjöt­fram­leiðslu og færa sig yfir í annars konar land­búnað. Hinn helminginn ætti að nýta til þess að lækka verð á græn­meti og á­vöxtum.

Sparnaðurinn myndi ekki einungis skila sér í minni út­blæstri gróður­húsa­loft­tegunda, heldur einnig lægri heil­brigðis­kostnaði.

„Evrópu­búar borða gróf­lega á­ætlað helmingi meira kjöt en mælt er með, svo að með þessu gætum við líka sparað milljarða í heil­brigðis­kostnaði,“ segir Jeroom Remmers, stjórnandi hjá Tapp Coalition.