Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra las ekki greinargerð ríkislögmanns þar Guðjón Skarphéðinsson er sagður bera ábyrgð á eigin sakfellingu áður en hún var lögð fram. Forsætisráðherrann sat fyrir svörum Loga Einarssonar þingmanns Samfylkingarinnar, Halldóru Mogensen þingmanns Pírata og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þingmanns Viðreisnar á þingfundi í morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í fyrradag að greinargerð Andra Árnasonar, setts ríkislögmanns í máli Guðjóns Skarphéðinssonar, hafi farið til yfirlestrar í þremur ráðuneytum, forsætis-, fjármála- og dómsmálaráðuneyti, áður en hún var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku. Ráðherrar umræddra ráðuneyta vissu af greinargerðinni en fengu ekki sérstaka kynningu á henni. Greinargerðin var í ráðuneytunum í tveggja vikna skeið áður en hún var lögð fram í héraðsdómi.

Hagsmunir ríkisins eru réttindi borgaranna

Halldóra Mogensen, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Logi Einarsson spurðu margoft hver afstaða forsætisráðherra væri gagnvart greinargerð ríkislögmanns í máli gegn Guðjóni Skarphéðinssyni. Katrín gaf ekki skýrt svar á eigin skoðun en sagðist vilja endurskoða vinnulag ríkislögmanns og framkvæmdavalds í nýju frumvarpi sem kynnt verður á Alþingi á morgun.

Þorgerður Katrín sagði það skammarlegt að enginn ráðherra hafi lesið greinargerð í stærsta og erfiðasta dómsmáli Íslands og spurði hvort ekki væri tími til kominn að sýna mennsku í umræddu máli. „Hvers konar er þetta?!“ spurði Þorgerður Katrín.

Katrín sagði að ríkislögmaður ynni greinargerð á sjálfstæðan hátt og að vinnulag hans væri að grípa til ítrustu varna. Halldóra sagði að ekki væri hægt að þvo hendur sínar af málinu og það væri ekki rétt að ríkislögmaður ætti að grípa til ítrustu varna.

„Hagsmunir ríkisins eru réttindi borgaranna,“ sagði Halldóra Mogensen og sagði álit forsætisráðherra stórfurðulegt. Halldóra velti fyrir sér hvort ekki væri tilefni að biðjast afsökunar á að ríkislögmaður hafi komið fram á slíkan hátt.

Logi og Halldóra veltu bæði fyrir sér hvers vegna frumvarpið væri kynnt nú en ekki fyrr. Hver hefði þá verið tilgangur sáttanefndar?

„Af hverju núna? Af hverju var þetta ekki gert fyrr?“ spurði Logi.