Vefjur er bráðsniðugt að eiga til á heimilinu og í þær er auðvelt að nýta afganga. Grænmeti, kjöt, osta, hummus, sósur, súkkulaði og ávexti má nota til að reiða fram dýrindis vefju. Hefðbundin vefja er til að mynda frábær til að nýta afganga í nesti. Tillaga að dýrindis fyllingu er að smyrja vefjuna með hummus, leggja því næst það grænmeti sem til er yfir, svo sem kál, agúrku, tómata og púrrulauk. Því næst má setja ost og sósu.

Salsa-sósa, ýmsar kaldar sósur og majónes passar vel með. Vefjur er einnig vel hægt að nýta til að útbúa eftirrétti úr því sem til er í eldhúsinu. Góð leið er að smyrja vefjuna með súkkulaðihnetusmjöri og leggja skorna ávexti eða ber yfir helming vefjunnar. Gott er að nota banana, jarðarber eða bláber. Lokið svo vefjunni svo hún myndi hálfhring og hitið á pönnu við meðalhita í stutta stund á hvorri hlið. Dásamlegt er að bera fram með ís eða rjóma.

Tillaga að dýrindis fyllingu er að smyrja vefjuna með hummus, leggja því næst það grænmeti sem til er yfir, svo sem kál, agúrku, tómata og púrrulauk. Því næst má setja ost og sósu.
Fréttablaðið/Getty

Pítsa

250 g spelt

3 tsk. vínsteinslyftiduft

½ tsk. salt

2 msk. olía

130-140 ml heitt vatn

Þurrefnunum er blandað saman í skál, því næst vatninu og að lokum olíunni. Hnoðið saman í deig. Þegar deigið hefur verið flatt út er bæði gómsætt að setja pitsusósu á deigið eða pensla það með hvítlauksolíu. Auðvelt er að útbúa dýrindis pitsusósu með því að blanda saman í jöfnum hlutföllum tómatpúrru og tómatsósu og krydda með salti, pipar og basilíku. Því næst er um að gera að nýta ost sem til er; brauðost, kryddosta, jurtaost, rjómaost, mozzarella og svo framvegis.

Á toppinn má svo raða því grænmeti, kjöti og ávöxtum sem til eru á heimilinu. Hugmyndir að áleggi geta verið skinka, pepperóní, kjúklingsafgangur, paprika, eggaldin, bananar, chili, ólífur og rauðlaukur.

Pitsan er svo bökuð við 220°C í miðjum ofni í 10-15 mínútur eða þar til hún er bökuð í gegn og osturinn orðinn gullinn. Þegar pitsan er tekin úr ofninum má sáldra yfir hana olíum af ýmsu tagi og bæta við fersku salati. Ef salatið í ísskápnum er ekki splunkunýtt má skola það upp úr ísköldu vatni svo það verði stökkt að nýju.

Ef salatið í ísskápnum er ekki splunkunýtt má skola það upp úr ísköldu vatni svo það verði stökkt að nýju.
Fréttablaðið/Getty

Anditsmaskar

Auðvelt er að útbúa ýmiss konar andlitsmaska úr matvælum. Hvort sem um er að ræða rakamaska, hreinsimaska eða skrúbb. Tilvalið er að nota þau matvæli sem ekki er séð að verði borðuð.

Rakamaski: Blandaðu saman hálfri stappaðri lárperu, teskeið af hunangi og einni matskeið af hreinni jógúrt. Berðu á andlitið og láttu bíða í fimmtán mínútur. Þurrkaði svo af með rökum þvottapoka.

Hreinsimaski: Hrærðu eitt egg út í matskeið af hreinni jógúrt og örlítilli mjólk. Berðu á andlit og háls og láttu standa í tíu til tuttugu mínútur. Hreinsaðu af með köldu vatni.

Kaffiskrúbbur: Blandaðu saman tveimur hlutum af kókos- eða ólífuolíu, einum hluta af kaffikorg (nýjum eða notuðum) og einum hluta af púðursykri. Berðu á andlit og líkama og skolaðu svo af undir vatni. Skrúbburinn geymist vel við stofuhita í lokuðu íláti.

Kaffi og egg nýtast vel í maska.
Fréttablaðið/Getty