Fyrsta verk­fall eins af fé­lögunum fjórum sem ný­verið slitu kjara­við­ræðum við Sam­tök at­vinnu­lífsins eftir við­ræður hjá ríkis­sátta­semjara hófst í morgun. 700 hótel­starfs­menn Eflingar – verka­lýðs­fé­lags hófu verk­fall klukkan 10 í morgun og stendur það til mið­nættis. 

En má búast við fleiri verk­föllum innan fé­laganna, Eflingar, VR, Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness (VLFA) og Verka­lýðs­fé­lags Grinda­víkur (VLFG)? Og ef svo er, hvernig yrði þeim háttað? 

Samstilltar aðgerðir gegn ferðaþjónustunni

Það fer vitaskuld allt eftir því hvernig atkvæðagreiðslur félaganna um verkföll fara en þessa dagana fer fram at­kvæða­greiðsla um verk­fall starfs­fólks á hótelum, rútu­fyrir­tækja og strætóbílstjóra (á vegum Kynnisferða), hjá Eflingu og lýkur henni á mið­nætti annað kvöld, laugar­daginn 9. mars. Á sama tíma fer fram at­kvæða­greiðsla um verk­falls­boðun VR á hótelum og rútu­fyrir­tækjum. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur á há­degi þriðjudaginn 12. mars næst­komandi. 

Fé­lögin eru nokkuð sam­stillt í að­gerðum sínum og hafa boðað verk­föll á sömu at­vinnu­greinar á sama tíma. Ætlunin er að koma höggi á ferða­þjónustuna, stærstu at­vinnu­grein landsins, í þeim til­gangi að hlustað verði á kröfur fé­laganna. Þær hljóða meðal annars upp á að lág­marks­laun verði hækkuð upp í 425 þúsund krónur á mánuði. 

Búið er að birta fyrir­hugaða verk­falls­daga VR og Eflingar, að því gefnu að félagsmenn samþykki slíkt í atkvæðagreiðslu, og eru þeir eftirfarandi:

Ábyrgðin atvinnulífsins

Auk þess hefur Efling boðað svo­kölluð ör­verk­föll eða vinnutruflanir sem fela í sér að verk­falls­hóparnir tak­marka vinnu sína að hluta til. Það tekur á sig ýmsar myndir, allt frá því að rútu­bíl­stjórar vinni einungis eftir starfs­lýsingu, að strætó­bíl­stjórar rukki ekki í strætó eða að hótel­starfs­fólk sinni ekki þrifum eða tékki ekki út gesti. 

Þá hefur VLFA lýst yfir ein­dregnum stuðningi við verk­falls­að­gerðir VR og Eflingar. Stjórn fé­lagsins hefur á­kveðið að láta fara fram alls­herjar­at­kvæða­greiðslu um verk­falls­boðun meðal fé­lags­manna sinna sem heyra undir kjara­samning sem fé­lagið á við Sam­tök at­vinnu­lífsins vegna veitinga-, gisti-, þjónustu og greiða­sölu­staða, af­þreyingar­fyrir­tækja og hlið­stæðrar starf­semi.

SGS fundar enn með SA í Karphúsinu

At­kvæða­greiðslan mun hefjast 29. mars og og standa til 5. apríl og ef kosning um verk­fall verður sam­þykkt mun alls­herjar­verk­fall þeirra sem heyra undir áður­nefndan kjara­samning skella á 12. apríl. 

Þá hefur stjórn VLFG sagt að þegar til verk­fall kæmi væri ekki hægt að benda á verka­fólk. „Einu söku­dólgarnir eru at­vinnu­rek­endur sem bjóða launa­hækkanir sem við­heldur fá­tækt hjá verka­fólki,“ segir í á­lyktun stjórnar og trúnaðar­ráðs VLFG. 

Þrátt fyrir að fé­lögin fjögur hafi slitið við­ræðum við SA hjá ríkis­sátta­semjara halda við­ræður Starfs­greina­sam­bandsins við at­vinnu­lífið á­fram á vett­vangi ríkis­sátta­semjara. Þar hefur verið fundað stíft undan­farna daga en ekki enn verið komist að sam­komu­lagi eftir að deilunni var vísað til sátta­semjara.