Stærsti tímagjafinn í umhverfi okkar er sólarljósið og myrkrið. Aðrir tímagjafar eru t.d. hitasveiflur milli dags og nætur, klukkan hvað við neytum fæðu og einfaldir hlutir eins og vekjaraklukkan.

Birta og myrkur stjórna framleiðslu melatóníns í heilanum en hormónið melatónín hjálpar okkur að verða syfjuð og undirbúa líkamann fyrir svefn. Þegar ljós fellur á augnlokið minnkar framleiðsla á melatóníni sem dregur úr þreytu og við vöknum upp af svefni. En þegar dimma tekur í umhverfi okkar þá fer líkaminn að framleiða melatónín og tekur það líkamann um tvær klukkustundir að ná hámarksframleiðslu. Þá finnum við fyrir vaxandi syfju og verðum tilbúnari til að leggjast til rekkju.

Þegar birtan er allsráðandi eins og hér á Íslandi getum við átt það til að vakna of snemma á morgnana áður en við erum útsofin og birtan fram eftir kvöldi getur seinkað þreytunni. Hefur þetta mikil áhrif á fólk?

„Rannsóknir hafa sýnt að sumir einstaklingar með geðhvarfasýki eru líklegri til að fara í oflæti eða maníu þegar birtan er allsráðandi. Hægt er að minnka líkur á þessu með því að vera með sérstök sólgleraugu sem filtera bláa ljósið í birtunni (e. blue blockers),“ segir Erna Sif Arnardóttir, rannsóknasérfræðingur við Háskólann í Reykjavík og Landspítala og formaður Hins íslenska svefnrannsóknafélags.

Hún segir að mikil birta, t.d. af sólarljósi eða skjánotkun síðustu tvo tímana fyrir svefn valdi því að framleiðsla melatóníns minnki og erfiðara er að sofna.

„Þó er einstaklingsbundið hversu mikil áhrifin af kvöldbirtu eru á fólk, sumir eru mjög viðkvæmir og eiga þá erfitt með svefn en aðrir finna lítið eða ekkert fyrir áhrifum kvöldbirtu á svefninn,“ segir Erna Sif.

„En það er til nokkuð sem heitir sumarþunglyndi. Skammdegisþunglyndi er talsvert þekktara og ég veit ekki til þess að sumarþunglyndi hafi verið rannsakað sérstaklega á Íslandi. Skammdegisþunglyndi einkennist af þreytu, syfju og aukinni matarlyst en sumarþunglyndi af svefnleysi, erfiðleikum með að slaka á og lítilli matarlyst.“