Hafsteinn Einarsson, stjórnmálafræðingur og doktorsnemi við Manchester háskóla, segir að það hafi verið ótrúlegt að fylgjast með innbroti stuðningsmanna Trump inn í þinghús Bandaríkjanna í gærkvöldi. Hann segir ljóst að eftir sigurinn í þingkosningum í Georgíu í gær hafi Biden fengið tækifæri til að koma lögum í gegnum þingið næstu tvö ár.

„Það er erfitt að gefa afdráttarlaus svör á þessum tímapunkti,“ segir hann léttur í bragði aðspurður hvað í ósköpunum bíði heimsins næstu tvær vikur, þær síðustu í embættistíð Donald Trump eftir skrílslæti stuðningsmanna hans í þinghúsinu í gær.

„Hvernig gat þetta gerst? Maður gerði ráð fyrir því að þinghús Bandaríkjanna væri ein öruggasta bygging í heimi. Þetta virtist alltof einfalt og maður áttar sig ekki á því hvers vegna viðbúnaðurinn og öryggisgæslan var ekki meiri,“ segir Hafsteinn.

Hann segist hafa átt von á mótmælunum og jafnvel einhverskonar ofbeldi en ekki því sem átt hafi sér stað í gær. „Síðast þegar einhver komst inn í þingsalinn var það fyrir rúmum 200 árum þegar Bretar stóðu í stríði við Bandaríkjamenn. Svo sér maður Suðurríkjafánann blakta í þinghúsinu sem gerðist ekki einu sinni í borgarastyrjöldinni fyrir 160 árum.“

Bandaríkjaforseti lét öllum illum látum á samfélagsmiðlum í gær og virtist svekktastur út í varaforseta sinn Mike Pence fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir staðfestingu Bandaríkjaþings á sigri Biden. Sjálfur sagði Pence það ekki vera innan valdsviðs síns og segir Hafsteinn að það sé líklegast rétt túlkun.

„Svo fær maður ekki séð að þingið sé rétti vettvangurinn til að leysa úr einhverjum deilum sem farið hafa fyrir dómstólum og verið vísað þar frá,“ útskýrir Hafsteinn. Ríkin hafi öll staðfest sín úrslit og því lítið annað að gera fyrir þingið en að samþykkja úrslitin.

Aðspurður að því hvort gærdagurinn hafi verið síðasti möguleikinn fyrir Trump til að koma í veg fyrir kjör Biden, segist Hafsteinn ekki sjá hvað annað forsetinn geti til bragðs tekið næstu tvær vikur í embætti.

„Maður fær ekki séð að það hafi verið neinn lagalegur bakgrunnur fyrir þessu upphlaupi sem átti sér stað á þinginu í gær, enda neitaði Pence að taka þátt í þessu. Með orðum Trump í dag er ekki annað að sjá en að hann hafi ekki gefist upp. En ég get ekki með nokkru móti séð að úrslitum kosninga verði breytt úr þessu, þó málflutningur Trump og hans fólks haldi áfram“ segir Hafsteinn.

Úrslitin í Georgíu stórmerkileg

Hafsteinn segir ljóst að sigur Demókrata í þingkosningunum í Georgíu í gær og meirihluti í öldungadeild og fulltrúadeild í fyrsta skiptið síðan 2010 sé sögulegur.

„Sögulega eru þetta náttúrulega stórmerkileg tíðindi. Við erum að sjá svartan frambjóðanda Demókrata sigra í suðurríki, sem eru straumhvörf og hefur verið óhugsandi um langt skeið,“ segir Hafsteinn.

„Atlanta borg er ein stærsta borg Bandaríkjanna, vex hratt og er eitt sterkasta vígi Demókrata í suðrinu. En það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem Demókratar hafa komist nálægt því að vinna kosningar í ríkinu,“ segir Hafsteinn og vísar til þess að Suðurríkin eru allajafna mikið vígi Repúblikana.

„Þetta náttúrulega breytir öllu fyrir Biden. Hann hefði mátt sjá fram á tvö ár þar sem hann kæmi engu að ráði í gegnum þingið. Við skulum samt ekki vanmeta að það verður gríðarlega erfitt að koma stórri löggjöf í gegn með jafn nauman meirihluta og hann hefur,“ segir Hafsteinn, en báðir flokkar hafa nú 50 öldungadeildarþingmenn sem þýðir að Kamala Harris verðandi varaforseti getur greitt oddaatkvæði.

Hann bendir á að íhaldssamir Demókratar fyrirfinnist á þinginu og því erfitt að gera ráð fyrir því að Biden muni koma löggjöf í gegn sem valda mun straumhvörfum, líkt og þeirri sem Obama kom í gegn um breytingar á bandaríska heilbrigðiskerfinu.

Um úrslitin í Georgíu segir Hafsteinn blikur á lofti um að flokknum gangi í kosningum þar sem nafn Donald Trump er ekki að finna á kjörseðlinum.. „Það stóð tæpt að Trump fengi fjögur ár til viðbótar. En nú verðum við að spyrja okkur eftir þetta tap í gær og kosningarnar 2018 þar sem Trump var ekki á kjörseðlinum, hvort Repúblikanar eigi hreinlega erfitt með að vinna kosningar þar sem Trump er ekki á kjörseðlinum.“

Helmingur Repúblikana sér ekkert athugavert við gærkvöldið

Hafsteinn bendir á að samkvæmt nýjum könnunum telji helmingur Repúblikana ekkert athugavert við þá atburðarrás sem átti sér stað í þinghúsinu í gærkvöldi.

„Sem segir manni að þó að þetta hafi verið ákveðinn öfgahópur sem mætti til leiks að þá nýtur þessi málstaður töluverðs stuðnings í samfélaginu. Það segir mér að það sé ólíklegt að við sjáum fyrir endann á þessum deilum meðal Bandaríkjamanna. Ljóst er að hættan á frekari ofbeldisverkum er ekki liðin og geti jafnvel magnast þegar öfgahópar sjá hversu mjúkum höndum var farið með þá í gær,“ segir hann.

Þá sé ljóst að gærkvöldið sé áhyggjuefni fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna. „Þetta hlýtur að gleðja Pútín og aðra sem óska Bandaríkjunum ills og hafa hag af því að þar sé óreiða,“ segir hann. „Við verðum líka að hafa í huga að mótmælendur komust inn í þingið og á skrifstofu Nancy Pelosi. Erfitt er að vita hvort gögn eða skjöl hafi verið tekin,“ segir Hafsteinn.

Hann segir það ótrúlegt að fylgjast með öryggisgæslu og viðbúnaði lögreglu í gær miðað við á síðasta ári þegar Black Lives Matter hreyfingin mótmælti og lögreglumenn stóðu gráir fyrir járnum fyrir framan þinghúsið.

„Í gær var ekki að sjá að lögreglan hefði viðhaft sérstakan viðbúnað. Það verður að spyrja sig, hver er það sem ákveður þetta? Kom Trump að ákvarðanatöku í því máli? Ef svo er þá hljóta að vakna alvarlegar spurningar um það sem er að eiga sér stað,“ segir hann.

Þá veki gærkvöldið upp spurningar um hlutverk samfélagsmiðla, sem lokuðu nokkrum færslum Bandaríkjaforseta í gær. „Og nú er verið að búa til nýjar samsæriskenningar, meðal annars um að þetta hafi bara verið leikarar sem hafi þóst vera stuðningsmenn Trump. Maður skilur ekki hvernig einhver ætti að trúa því en þetta verður líklegast umræðan á ysta hægrinu næstu vikurnar.“